29/04/2024

Hvatt til hjálmanotkunar

Sýslumaðurinn í Strandasýslu hefur sent frá sér tilkynningu sem brýnir fyrir fólki nauðsyn þess að nota hlífðarhjálma við hjólreiðar. Í tilkynningunni eru foreldrar og forráðamenn hvattir til að vera börnum sínum góðar fyrirmyndir og skella hjálminum á kollinn áður en stigið er á hjólhestana. Auk þess er þeim bent á að gæta þess að börn yngri en 15 ára séu ætíð með slíkan hjálm við hjólreiðar. Ef því er ekki fylgt mun lögregla stöðva hjólreiðarnar þar til hjálmurinn er kominn á réttan stað. Tilkynninguna má sjá hér í heild sinni:

Notkun hlífðarhjálma barna yngri en 15 ára við hjólreiðar

Af gefnu tilefni vill lögreglustjóri beina þeim tilmælum til foreldra og forsjáraðila barna yngri en 15 ára að þau tryggi að barn/börn þeirra noti viðurkenndan hlífðarhjálm við hjólreiðar.

Til hvers hlífðarhjálmur?
Hlífðarhjálmur er öryggistæki sem ætlað er að koma í veg fyrir minniháttar eða meiriháttar höfuðskaða sem af getur hlotist vegna byltu eða áreksturs.

Fyrirmyndir!
Mikilvægt er að foreldrar og þau börn sem eldri eru fari einnig eftir reglum um hlífðarhjálma þar sem að yngri börn fara eftir því sem fyrir þeim er haft.

Foreldrar!
Vinsamlegast brýnið fyrir börnum ykkar mikilvægi öryggishjálma, tryggið að öryggishjálmurinn verði ávallt á kollinum en ekki í skúffunni þegar farið er að hjóla og stuðlið þannig að auknu öryggi barnanna í umferðinni.

Eftirlit lögreglu!
Lögregla mun ekki láta sitt eftir liggja og verður akstur þeirra barna sem ekki hafa hlífðarhjálm við hjólreiðar stöðvaður.  Akstur verður ekki heimilaður fyrr en öryggishjálmurinn er kominn á réttan stað og festur með viðeigandi hætti.

Stöndum saman um að auka öryggi barna okkar og annarra.

Lögreglustjórinn á Hólmavík
Hólmavík, 12. júní 2006