23/12/2024

Húsbyggingar framundan á Hólmavík

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur spurnir af því að framundan séu húsbyggingar á Hólmavík, en skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði í þorpinu undanfarið. Nýlega ráðstafaði sveitarstjórn Strandabyggðar síðustu skipulögðu einbýlishúsalóðinni við Lækjartún og einnig er fyrirhugað að stofnað verði félag sem hefur á stefnuskránni að reisa einingarhús á Hólmavík. Að því félagi standa Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmadrangur ehf., Sparisjóður Strandamanna og Trésmiðjan Höfði ehf.

Eru líkur á að strax á þessu ári hefjist nýja félagið handa við að reisa 2-4 íbúðir sem fyrirhugað er að selja, en verið er að skoða mismunandi möguleika og útfærslur þessa dagana. Óvíst er hvar húsin munu standa, en ekki eru tilbúnar skipulagðar lóðir fyrir þau.