29/04/2024

Hrútaþukl, happdrætti og ný sögusýning á Sauðfjársetrinu

hrutadomar2010e

Það verður mikið um dýrðir á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum um helgina, en á laugardaginn er árleg keppni fyrir bæði vana og óvana keppendur í hrútadómum og þukli. Einnig er efnt til veglegs lambahappdrættis þar fimm gæðagripir á fæti – gimbrar og hrútar – eru í vinninga, en Strandir eru þekktar fyrir líflambasölu á hverju hausti. Þá verður opnuð ný sögusýning sem hefur yfirskriftina Brynjólfur Sæmundsson og starf héraðsráðunauta. Að venju verður einnig kaffihlaðborð & kjötsúpa á boðstólum allan daginn. Skemmtunin hefst í Sævangi á laugardaginn 16. ágúst kl. 14:00. Aðgangur að hátíðinni og sýningum Sauðfjársetursins er ókeypis í tilefni dagsins.

Íslandsmótið í hrútadómum hefur haft mikið aðdráttarafl og fólk kemur á staðinn víða af landinu til að taka þátt eða fylgjast með. Keppt er bæði í flokki vanra og óvanra hrútaþuklara. Landslið sauðfjárræktarráðunauta mætir á svæðið og er í dómnefnd sem vegur og metur hrútana með aðstoð nýjustu tækni og vísinda, en síðan þurfa keppendur sem fá takmarkaðar upplýsingar að fylla í eyðurnar með hendurnar einar að vopni og þarf matið að vera sambærilegt og dómnefndarinnar. Óvanir þurfa að raða hrútunum í gæðaröð og rökstyðja matið og má rökstuðningur vera með hvaða hætti sem er. Vegleg verðlaun í boði í báðum flokkum, m.a. gefin af Iceland Airs hótel – Hótel Eddu, Ferðaþjónustu bænda, SAH afurðum á Blönduósi, Sæferðum, Ístex, Sauðfjársæðingastöð Vesturlands og Sauðfjársetrinu.

Þá er stórhappdrætti í tilefni dagsins nýbreytni, en í vinning eru hágæða líflömb. Þar á meðal eru 3 lambhrútar á fæti sem fá 84 stig eða meira. Þeir koma frá Birni og Bjarnheiði á Melum, Guðbrandi og Lilju á Bassastöðum og Reyni og Steinunni í Miðdalsgröf. Einnig er í vinning forystugimbur frá Haraldi og Hrafnhildi á Innra Ósi og flekkótt ásetningsgimbur frá Matthíasi og Hafdísi í Húsavík.  Miðar í lambahappdrættinu eru seldir á staðnum, en fyrir þá sem ekki komast á þessa frábæru skemmtun er hægt að kaupa happdrættismiða á Sauðfjársetrinu í Sævangi fram á laugardag og með því að hringja í Ester í síma 693-3474. Miðinn kostar einungis 500.- kr og verður aðeins dregið úr seldum miðum.

Ný sögusýning verður opnuð í tilefni dagsins í sérsýningarherbergi Sauðfjársetursins: Brynjólfur Sæmundsson og starf héraðsráðunauta. Þar er sagt frá störfum ráðunauta með sérstakri áherslu á Brynjólf sem var héraðsráðunautur á Ströndum í meira en fjóra áratugi, frá 1959-2003.

Kjötsúpa og kaffihlaðborð verða á boðstólum í Kaffi kind og ef að líkum lætur eiga menn þar góðar stundir við spjall við náungann. Aðgangur að öllum sýningum Sauðfjársetursins er ókeypis í tilefni dagsins; fastasýningin Sauðfé í sögu þjóðar er í aðalsal Sævangs, list- og sögusýningin Álagablettir er á listasviðinu, sýningin Allt á kafi – Snjóaveturinn 1995 er í kaffistofunni og nýja sýningin Brynjólfur Sæmundsson og starf héraðsráðunauta er í sérsýningarherberginu.