23/12/2024

Hraðamælingar innanbæjar á Hólmavík

Samkvæmt fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum voru sjö ökumenn kærðir í síðustu viku fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á 122 km hraða á veginum um Súgandafjörð. Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt innanbæjar á Hólmavík og jafnmargir á Patreksfirði. Í júlí síðastliðnum samþykkti Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd Strandabyggðar að senda erindi til lögreglustjórans á Vestfjörðum og fara fram á að hraðamælingum verði sinnt í auknum mæli innanbæjar á Hólmavík, auk þess sem settar verði upp hraðahindranir á Hafnarbrautina og gangbraut.

Samkvæmt tilkynningunni urðu sex umferðaróhöpp og slys í vikunni á Vestfjörðum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum varð banaslys við bæinn Klukkufell í Reykhólasveit um kl. 17:00 sl. mánudag er bifreið valt út af veginum. Ökumaður var einn í bifreiðinni og lést hann af áverkum sem hann hlaut í slysinu. Lögreglan á Vestfjörðum vinnur að rannsókn þessa máls. 

Ökumaður bifreiðar var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa ekið bifreið sinni á kyrrstæða vörubifreið á Ísafirði um kl. 22:10 á þriðjudeginum. Meiðsl ökumanns, sem var barnshafandi kona, reyndust minniháttar en bifreiðin var mikið skemmd og var flutt með kranabifreið af vettvangi. Önnur óhöpp voru slysalaus og skemmdir á ökutækjum minniháttar.

Tilkynnt var um eld í íþróttahúsinu í Bolungarvík á sunnudeginum kl. 11:15. Íþróttahúsið er áfast sundlaugarbyggingu þar sem fram fór Vestfjarðarmeistaramót í sundi og var talsvert af fólki þar inni. Fresta varð mótinu vegna þessa atviks og var húsið rýmt af öryggisástæðum. Eldurinn var í þaki íþróttahússins og náði slökkvilið Bolungarvíkur strax tökum á eldinum en rjúfa varð þakið til að komast að eldsupptökum. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni en rannsókn stendur yfir.