21/12/2024

„Hráa kjötið“ sjálfdautt á Alþingi !

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður
Mikil andstaða er í landinu gangvart frumvarpi ríkisstjórnarinnar um frjálsan innflutning á hráu kjötmeti. Þingmenn Vinstri grænna hafa sett það á oddinn nú við þinglok að stöðva þetta mál. Með samstilltu átaki tókst það. Á síðustu dögum þingsins gafst Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra upp á því að keyra þetta óvinsæla og illa unna mál í gegnum þingið. Ráðherrann hafði þá fengið alla bændastéttina, matvælaiðnaðinn o.fl. á móti sér í málinu. Mikill urgur var í frjálshyggjuliði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar yfir þeirri niðurstöðu og einokunaraðilarnir á matvörumarkaðnum grenjuðu hástöfum. Er það athyglisvert að forystumenn Sjálfstæðisflokksins telji sig ekki lengur þurfa að hlusta á rödd bænda.

 

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa klifað á því að Íslendingar væru nauðbeygðir til að taka upp tilskipanir Evrópusambandsins í þeim efnum. Þegar kallað hefur verið eftir skriflegum gögnum um aðgerðir fulltrúa Íslendinga til að semja sig frá þeim kröfum hefur orðið minna um svör. Er það dæmigert fyrir undirlægjuháttinn í samskiptum við ESB.

Samstillt barátta

Þingmenn VG hafa lagst alfarið gegn þeirri galopnum á innflutningi á hráu kjöti sem frumvarpið felur í sér, og telja brýnt að þetta mál verði stöðvað í þinginu. Frumvarpið gengur einnig gegn matvælaöryggi þjóðarinnar og hagsmunum neytenda bæði hvað varðar verð og gæði matvara til skemmri og lengri tíma.

Umsögn Margrétar Guðnadóttur doktors í veirufræði og fleiri vísindamanna um áhættuna á sjúkdómum fyrir fólk og búfé hafði mikil áhrif. Hvers vegna áttum við að fórna góðri stöðu í heilbrigði búfjár og hollustu matvara fyrir þjónkun við ESB?

Sem dæmi um þá miklu andstöðu sem „hráa kjötið“ hefur mætt þá hafa öll búnaðarsambönd, búgreinafélög, afurðastöðvar ályktað gegn málinu svo og nánast öll sveitarfélög t.d. á Norðurlandi og víðar. Nú ríður á að fylgja eftir þessum góða áfanga sigri og vinna vel í málinu til hausts og finna leiðir til að koma í veg fyrir að það nái fram að ganga a.m.k. í því formi sem það er nú.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi