28/03/2024

Hörður Torfa á Hólmavík

Sagt er frá því á vef Popplands að söngvaskáldið Hörður Torfa er að leggja upp í sína síðustu hringferð í kringum landið og verða meðal annars tónleikar á Café Riis á Hólmavík sunnudaginn 24. september kl. 20:30. Hörður hóf að ferðast um landið árið 1970 og smám saman þróuðust ferðirnar út í að hann fór hringinn nánast á hverju ári og stundum tvisvar. Það er varla til það þorp á landinu sem Hörður hefur ekki heimsótt með tónleika og flest þeirra oftar en einu sinni. 

Hörður hefur ákveðið að fara síðustu hringferðina núna í haust, þó að í framtíðinni muni hann halda áfram heimsækja ýmsa byggðarkjarna og staði með tónleika. Með í farteskinu hefur hann nýútkomna Söngvabók og plötuna Tabú sem hefur verið yfirfærð á geisladisk. Auk þess hefur hann með sér nýútkominn disk með heiðurstónleikum sem honum voru haldnir í Borgarleikhúsinu í september 2005.

Hörður er Hólmvíkingum að góðu kunnur, enda hefur hann oft haldið tónleika á Hólmavík og þykir afburðasnjall tónleikahaldari. Hörður dvaldi einnig á Hólmavík við leikstjórn vorið 1992 þegar hann leikstýrði gamanleiknum Glímuskjálfta hjá Leikfélagi Hólmavíkur.

Vefsíða Harðar Torfa er á slóðinni www.hordurtorfa.com og er meðfylgjandi mynd tekin þaðan.