22/12/2024

Hesthús til umræðu

Á hreppsnefndarfundi á Hólmavík fyrir fáum dögum var fjallað um sölu á hesthúsi í eigu Hólmavíkurhrepps við Víðidalsá. Lögð var fram umsögn frá Valdemar Guðmundssyni og Eysteini Gunnarssyni hreppsnefndarmönnum sem hafði verið falið að ræða við hestaeigendur sem höfðu gert kauptilboð í hluta hússins. Um er að ræða um það bil þriðja part hússins sem hefur verið innréttaður sem hesthús, en gegndi áður hlutverki fjárhúss eins og afgangurinn af húsinu.


Niðurstaðan varð sú að gerður verði samningur um söluna og að hestamenn kaupi hesthúsið og hafi síðan forkaupsrétt að óseldum hluta hússins. Á sama hátt hefur hreppurinn forkaupsrétt að hesthúshlutanum ef hann verður endurseldur. Sveitarstjóra var síðan falið að gera samning um söluna "á fyrirliggjandi kostnaðarverði", eins og það er orðað í fundargerð hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps.