23/12/2024

Helstu verkefni lögreglunnar í síðustu viku

Í fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að í vikunni 8.-14. sept. var tilkynnt um fjögur umferðaróhöpp. Á mánudaginn fór bifreið út af veginum við Hrófá, skammt frá Hólmavík. Ökumaður var einn í bílnum og var hann fluttur með sjúkrabifreið af vettvangi, en var ekki talinn mikið slasaður. Bílinn var mikið skemmdur. Önnur umferðaróhöpp reyndust minniháttar. Tveir ökumenn voru handteknir vegna gruns um ölvun við akstur, annar á Ísafirði en hinn var ökumaður fjórhjóls sem var stöðvaður á Barðaströnd. Þessu til viðbótar voru tveir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna á Ísafirði og nágrenni. Í öðru málinu voru haldlögð um 5 grömm af meintu hassi sem einn farþegi í bifreiðinni viðurkenndi að eiga.

Á miðvikudeginum var tilkynnt um eld í skúr við Siglunes á Barðaströnd. Skúrinn, sem var mannlaus, var að mestu brunninn til grunna er slökkvilið kom á staðinn. Lögreglan vinnur að rannsókn á eldsupptökum. 

Eins og fram hefur komið áður var brotist inn í margar bifreiðar og íbúðarhús í Bolungarvík aðfaranótt fimmtudagsins 11. september. Stolið var ýmsum tækjum úr bifreiðum og skemmdir unnar á nokkrum þeirra.  Tveir aðilar voru handteknir fimmtudagskvöld vegna gruns um aðild að málinu og hafa þeir verið yfirheyrðir.  Þeim var sleppt að yfirheyrslum loknum. Hluti þýfisins er fundinn en lögreglan vinnur áfram að rannsókn málsins.