22/12/2024

Helstu verkefni lögreglunnar í liðinni viku

Lögreglustöðin á HólmavíkÍ fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum þar sem farið er yfir helstu verkefni liðinnar viku kemur fram að sjö ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum í síðustu viku. Flestir voru stöðvaðir í nágrenni við Hólmavík. Sá sem hraðast ók var mældur á 119 km hraða á 90 kafla. Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Á laugardagskvöldið um kl. 21:00 var tilkynnt um bílveltu á veginum um Hálfdán á milli Bíldudals og Tálknafjarðar. Tveir menn voru í bifreiðinni en í ljós kom að þeir höfðu sloppið ómeiddir. Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur og að hafa tekið bifreiðina í óþökk eiganda hennar. Þá valt bifreið út af veginum um Dynjandisheiði á sunnudaginn. Ekki urðu slys á fólki en bifreiðin er mikið skemmd.

Nokkuð var um tilkynningar um grjóthrun á vegi og í einu tilfelli skemmdist bifreið er henni var ekið á grjót á veginum um Súðavíkurhlíð.

Á þriðjudeginum var óskað aðstoðar lögreglu að húsi á Ísafirði þar sem ung stúlka hafði læst að sér á salerni en gat ekki með nokkru móti opnað hurðina aftur. Lögreglumenn brugðust strax við og losuðu stúlkuna úr prísundinni.

Lögreglumenn á Vestfjörðum hafa haft sérstakt eftirlit með útivistartíma barna og ungmenna enda skólar byrjaðir og leyfður útivistartími styttri eftir 1. september. Nokkuð hefur verið um að börnum hafi verið fylgt heim til forráðamanna ef til þeirra hefur sést eftirlitslausum eftir leyfðan útvistartíma.