22/12/2024

Helga Vala Helgadóttir gefur kost á sér

Fréttatilkynning:
Ég hef undanfarin ár starfað á vettvangi fjölmiðla, fyrst á Bylgjunni og síðar hjá Ríkisútvarpinu, Talstöðinni og NFS. Ég er menntaður leikari og hef starfað við uppfærslur frá útskrift 1998 bæði sem leikari og leikstjóri. Brennandi áhugi á þjóðfélagsmálum og vilji til að hafa áhrif á umhverfið er ástæða þess að ég býð mig fram. Ég trúi því að það sé eftirspurn eftir konu með mína reynslu og hæfileika á Alþingi Íslendinga.  Ég hef ekki tekið virkan þátt í pólitísku starfi með Samfylkingunni, enda fer það illa saman við starf fjölmiðlakonunnar, en nú er lag, verkefnin framundan eru ærin og kraftar mínir munu nýtast vel til þeirra.

Þau mál sem mér eru ofarlega í huga eru málefni fjölskyldunnar, í hinu stóra samhengi. Það er ekki líðandi að grunnþjónustu sé ekki að fá nema á höfuðborgarsvæðinu og það verður að laga. Allt of lengi hefur landsbyggðin sætt sig við annars flokks þjónustu, með þeim rökum að hagkvæmnin miðist við stærðina og því borgi sig ekki að veita hana á landsbyggðini. Þetta hefur orðið til þess að íbúar landsbyggðarinnar minnka kröfurnar, en nú er mál að linni. Ríkisstjórnin hefur rétt plástur á ákveðin svæði, en plásturinn sem slíkur læknar ekki. Við þurfum fyrirbyggjandi aðgerðir, til að fólk fái áfram að búa í sinni heimabyggð. Menntun, heilbriðgðisþjónusta, öldrunarþjónusta og uppbygging atvinnulífs á öllum stöðum á landinu er krafa númer eitt. Það eru helstu baráttumálin – og ég ætla ekki að láta mitt eftir liggja!

Ég er búsett í Bolungarvík, gift Grími Atlasyni, bæjarstjóra Bolungarvíkur, og saman eigum við 4 börn.