03/05/2024

Heildarframleiðsla dregst saman um 3-4%

Hagfræðistofun Háskóla Íslands hefur gefið út skýrslu að beiðni Sambands
íslenskra sveitarfélaga þar sem lagt er mat á áhrif fyrirséðs niðurskurðar á þorskkvóta á ýmsum svæðum landsins og byggðarlögum. Fram kemur í skýrslunni að
flest bendi til að niðurskurður á þorskkvóta hafi mest áhrif á efnahagsleg
umsvif á Vestfjörðum og Vesturlandi. Samkvæmt útreikningum sem koma fram í
skýrslunni má gera ráð fyrir að heildarframleiðsla atvinnulífs í þessum
landshlutum dragist saman um 3-4% fyrsta árið eftir að tilkynnt var um
niðurskurð á þorskkvóta. Á Norðurlandi og á Suðurnesjum gætu heildarumsvif minnkað um 2-3% fyrsta árið en annars staðar á landinu má ætla að áfallið verði minna.

Gera má ráð fyrir að aflaskerðingin stuðli að samdrætti í framleiðslu á landsbyggðinni í eitt til tvö ár til viðbótar ef þorskkvótinn helst óbreyttur að magni en eftir það taki umsvif að aukast aftur.

Sé litið á heila landshluta má ætla að Vestfirðir og Vesturland verði fyrir hlutfallslega mestu áfalli vegna skerðingarinnar. Þá má ætla að tekjutap hafna víða um land verði umtalsvert og nemi samtals ríflega 100 milljónum króna í töpuðum hafnargjöldum sem rekja má beint til samdráttar í þorskafla.

Skýrslu Hagfræðistofnunar er hægt að nálgast í heild sinni með því að smella hér.