22/12/2024

Hefur drepist við að ala kálf

Rétt innan við Hólmavík skammt frá svonefndum Rostungskletti rak hval á land í sumar sem hefur farið lítið fyrir. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is átti þar leið um í morgun í rekaviðar- og berjaleit og kíkti við hjá hræinu til að kanna það nánar. Þá kom í ljós að líklega hefur hvalurinn látist af „barnsförum“, en kálfurinn hefur verið kominn með sporðinn út úr leginu þegar kýrin gaf upp öndina og því um það bil að hefja lífsgönguna. Svo virðist vera að um sé ræða hnýðing sem er tannhvalur af höfrungaætt og er farhvalur sem kemur hingað á vorin. Aðalfæða hnýðings er smáfiskur, þorskur og blekfiskur. Hann hefur um 50 tennur í hvorum skolti og er fullvaxinn 2-3 m á lengd og 200 kg að þyngd.

Gríðarlega miklar hvalakomur hafa verið á Steingrímsfirði í sumar og hefur vart liðið sá dagur undanfarið að ekki hafi verið tilkynnt um einn eða fleiri hvali á sveimi í firðinum.

580-hnydingur1
Eins og sjá má þá er kálfurinn hálfur úti

580-hnydingur2
Liggur í fjörunni og flugnagerið er mikið

580-hnydingur3

580-hnydingur4
Það er hægt að telja 50 tennur í hvoru skolti

580-hnydingur5
Frá strandstað

580-hnydingur6

Ljósm.: Sigurður Atlason