14/11/2024

Hamingjudagar á Hólmavík um helgina

Bæjarhátíðin Hamingjudagar á Hólmavík verður haldin um helgina og mikil dagskrá dagana 30. júní – 2. júlí. Af dagskrárliðum má nefna sundlaugarpartý, nerf byssubardaga, hverfispartý og brennu en þetta allt er aðeins brot af því sem verður um að vera á föstudagskvöldinu. Fyrirtæki opna dyrnar og sýna húsakynni sín og bjóða jafnvel upp á veitingar. Lista- og ljósmyndasýningar prýða bæinn.

Gyrðir Elíasson og Between Mountains koma fram við setningu hátíðarinnar sem fer fram í Steinshúsi við Ísafjarðardjúp. Þar verður Lóan, menningarverlaun Strandabyggðar, jafnframt veitt. Von er á góðum gestum víðs vegar að, helst ber að nefna BMX bræður, dívurnar Kristjönu Stefáns og Þórhildi Örvars ásamt Kalla Olgeirs, Ingrid Kuhlman sem fræðir okkur um hamingjuna og Leikhópinn Lottu. Á laugardeginum verður svo allsherjar karnival með víkingum, hestum, hoppuköstulum, Húlladúllu, kjötsúpu, trúbador, hamingjuhlaupurum, rallý, markaði og hnallþórum svo fátt eitt sé nefnt. Á kvöldin verður svo ekki minna stuð en þá ræður hljómveitin Króm ríkjum á Café Riis. Furðuleikar á Sauðfjársetri á Ströndum binda svo enda á Hamingjudaga á sunnudeginum.

Eins og sést er af nógu að taka og eitthvað fyrir alla. Heilsa, útivist og samvera er í fararbroddi með fjölmörgum útivistarviðburðum og sérstöku Hamingjubingói fyrir alla fjölskylduna. Markmiðið er að hver einasti íbúi í Strandabyggð ásamt gestum hátíðarinnar finni fyrir innri hamingju, hugarró, gleði og kærleika í hverju skrefi.

Dagskrána er að finna á vefsíðu hátíðarinnar www.hamingjudagar.is og á Facebook-síðu hennar.