26/04/2024

Hagnaður Sparisjóðsins 53,6 milljónir

Aðalfundur Sparisjóðs Strandamanna var haldinn í Sævangi sunnudaginn 15. apríl og er þetta 50. aðalfundur Sparisjóðsins sem haldinn hefur verið þar. Í fréttatilkynningu frá sjóðnum kemur fram að hagnaður ársins 2006 var 53,6 milljón króna eftir skatta og er hann að mestu af verðbréfaeign sparisjóðsins. Hagnaður ársins svarar til þess að arðsemi eigin fjár hafi verið 12,9%. Vaxtamunur af meðalstöðu fjármagns var um 3,5% en var 3,7% árið áður. Hlutfall rekstrarkostnaðar af hreinum rekstrartekjum var 40,8% en var 28,2% árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi hafa útlán aukist um 13,6% á milli ára og voru í árslok 561,7 milljónir króna. Innlán hafa dregist saman á milli ára um 8,3% og voru í árslok 440,8 milljónir króna. Eigið fé sparisjóðsins var í árslok um 471,1 milljónir króna en var 414,4 milljónir árið áður og hefur því aukist um 13,7% á milli ára. Eiginfjárhlutfall skv. CAD reglum er um 40,4% en var 31,5% árið áður og má það ekki vera lægra en 8%.

Sem fyrr hefur Sparisjóðurinn veitt styrki til menningar- og íþróttastarfa í héraðinu ásamt stuðningi við ýmis líknar- og góðgerðarfélög í landinu námu þeir á nýliðnu starfsári um 1,1 milljónum króna.
 
Stofnfjáraðilar Sparisjóðsins eru nú 92. Stjórn sparisjóðsins var öll endurkjörin en í henni eru: Björn Torfason, Sigurður Jónsson, Guðjón Sigurgeirsson, Þórður Sverrisson og Jenný Jensdóttir.