22/12/2024

Hagnaður hjá Kaupfélaginu!

Á aðalfundi Kaupfélags Steingrímsfjarðar sem haldinn var laugardaginn 23. apríl, kom fram að annað árið í röð er umtalsverður hagnaður af starfssemi félagsins. Á árinu 2004 er félagið gert upp með 88,5 milljón króna hagnaði, en hagnaður árið 2003 var 15.8 milljónir. Í fréttatilkynningu kemur fram að hefðbundinn rekstur Kaupfélagsins (KSH) var reyndar með nokkru tapi og rekstur allra deilda versnaði milli ára, nema á Drangsnesi. Hagnaður hlutdeildarfélagsins Hólmadrangs gerir svo útkomuna jákvæða, en meginhluti hagnaðar ársins er þó tilkominn vegna sölu hlutabréfa. Heildarlaunagreiðslur félagsins námu 49 milljónum til 75 aðila. Efnahagur KSH er sterkur og eiginfjárhlutfall í árslok var 70%.

Stjórn félagsins skipa þau; Jón Stefánsson, Matthías Lýðsson, Bára Karlsdóttir, Björn H. Sverrissson og Óskar Torfason sem er stjórnarformaður. Kaupfélagsstjóri er Jón Eðvald Alfreðsson og hefur verið það frá 1968. Kaupfélag Steingrímsfjarðar er deildaskipt samvinnufélag sem starfar á Ströndum. Suðurdeild starfar sunnan Hrófár, miðdeild frá Hrófá að Selá í Steingrímsfirði að meðtöldu Inndjúpi og norðurdeild frá Selá og norður Strandir. 

Í fréttatilkynningunni frá KSH eru íbúar á Ströndum sem ekki eru félagar Kaupfélagsins hvattir til  að ganga í það til að fá tækifæri til að hafa áhrif á starf þess og stefnu, sem er eins og áður, að taka af ábyrgð þátt í atvinnulífi og berjast fyrir byggð og blómlegu mannlífi á Ströndum.

Aðalfundarfulltrúar á fundi KSH – það vekur óneitanlega athygli að aðeins ein kona er fulltrúi á aðalfundi

Stjórn Kaupfélags Steingrímsfjarðar

Stjórn með Jóni Alfreðssyni kaupfélagsstjóra – ljósm. Óskar Torfason