26/12/2024

Hagnaður af rekstri Strandabyggðar 2010

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Strandabyggðar vegna ársins 2010 ásamt þriggja ára áætlun 2011-2013 var afgreidd á fundi í janúar. Gert er ráð fyrir hagnaði frá rekstri á árinu 2010 er nemur tæpum tveimur milljónum þegar aðalsjóður og B-hluta sjóðir eru teknir saman í samstæðureikningi. Hagrætt verður í rekstri og aðhaldi beitt án þess þó að skerða núverandi þjónustu. Eignfærðar fjárfestingar eru áætlaðar 21,5 milljón, en helstu verkefni ársins 2010 eru að koma í notkun nýrri borholu fyrir vatnsveitu Hólmavíkur, ljúka við klæðningu og skipta um járn á þaki á Höfðagötu 3, breyta sturtuklefa í Félagsheimilinu á Hólmavík í eldhús og lagfæra húseignina að Skólabraut 18.

Útsvarsprósenta og fasteignaprósentur breytast ekki milli ára, en gert er ráð fyrir hækkunum á fasteignagjöldum, vegna þess að fasteignamat húseigna á Hólmavík hefur hækkað umtalsvert milli ára að því er fram kemur í fundargerðinni. Önnur þjónustugjöld hækka að meðaltali um 7% nema tónskólagjöld, sem hækkuðu um 10% um áramót og gjöld vegna skólaskjóls og mötuneytis sem hækkuð voru haustið 2009.

Tekjur eru áætlaðar tæpar 345 millj. kr. og skiptast þannig að áætlaðar skatttekjur eru rúmar 157 millj. kr., framlag jöfnunarsjóðs tæpar 129 millj. kr. og aðrar tekjur rúmar 58 milljónir. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða eru áætluð rúmar 272 millj. kr., fjármagnsgjöld rúmar 51 millj. kr. og afskriftir tæpar 19,5 millj. kr.

Lagt var til við seinni umræðu að hækka húsaleigu um 8% og að styrkja hjálparstarf vegna náttúruhamfara á Haítí um 100 kr. á hvern íbúa og fela Rauða kross Íslands að ráðstafa féinu.

Fjárhagsáætlun var borin undir atkvæði og greiddu fjórir atkvæði með áætluninni en einn greiddi atkvæði á móti. Þá var 3ja ára áætlunin borin undir atkvæði og var hún samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum og einn sat hjá.