22/12/2024

Haftyrðlar á Hólmavík

Þegar verið var að prófa fyrstu flugeldana í gær á Höfðagötunni á Hólmavík þá skaust lítið dýr undan bíl sem stóð við Höfðagötu 7. Þetta reyndist vera lítill fugl sem baksaðist yfir götuna og náði ekki að hefja sig til flugs. Fréttaritari var forvitin og sendi strákana á eftir fuglinum og þeir náðu honum. Þetta reyndist vera haftyrðill sem hefur flækst hingað, óvenjulegur en þó þekktur vetrargestur. Fleiri fuglar hafa verið á ferðinni því um morguninn fannst haus af samskonar fugli á húströppum á Vitabraut og hefur afgangurinn líklega verið étinn, enda annálaður veiðiköttur á heimilinu sem lætur sig engu skipta þó fuglinn sé alfriðaður.

Síðustu daga hafa einnig sést haftyrðlar á Siglufirði og í Vestmannaeyjum, þannig að svo virðist sem góður hópur hafi lent á Íslandi að þessu sinni. Haftyrðlar koma í töluverðum mæli norðan út höfum á veturna. Þeir eru algengastir fyrir norðan og austan, en sjást þó einnig vestanlands og sunnan. Óvíst er hvaðan þeir koma nákvæmlega en þó hefur einn fugl, merktur á Svalbarða, náðst við Ísland. Algengt er að þeir hrekist í þúsundatali í um hafið í vetrarstórviðrum og margir farist, enda fisléttir og því viðkvæmir. Berast þeir stundum upp á land hér og finnast á ótrúlegustu stöðum.

Haftyrðillinn er bæði fugl strandhafa og úthafs. Varpheimkynni hans eru í fuglabjörgum við Íshafið, norðan Atlantshafs og Barentshafs, m.a. á Grænlandi, Svalbarða, Bjarnarey, Frans Jósefslandi, Nóvaja Semlja og ótal smáeyjum. Þarna er hann í milljónagrúa. Áætlað er t.d. að um 10 milljón haftyrðlar verpi undir fuglabjörgunum við Thule, nyrst á Grænlandi. Haftyrðlastofninn við Grænland hefur haldist nokkuð stöðugur á meðan fækkað hefur í öðrum svartfuglastofnum, þótt hættumerki sjáist vegna olíuframkvæmda við Grænland.

Haftyrðill er samanrekinn og kubbslegur í útliti, 17-25 cm að lengd, tæp 140 g að þyngd að meðaltali og með 30-48 cm vænghaf. Áður verpti haftyrðill í Grímsey (ekki þó þeirri á Steingrímsfirði), en hefur fækkað mjög og er horfinn sem varpfugl.

Haftyrðill þótti hinn mesti furðufugl er hann var að finnast fyrr á öldum, rekinn á land í stórum hópum, norðan úr Íshafinu. Ímynduðu menn sér að þetta væri undrafyglið halkíon sem samkvæmt þjóðsögnum átti að verpa úti á rúmsjó. Haftyrðillinn er mikilvægur Eskimóum; þeir bæði nýta hann sér til matar og vinna úr hamnum ákveðna flík sem nefnist á grænlensku tingmiaq. Í hana þarf 50 hami og dugar hún árið.

Helsta heimild: Sigurður Ægisson á vefnum www.sksiglo.is.   

580-haftyrdill1 580-haftyrdill2

Haftyrðill á Hólmavík – ljósm. Ásdís Jónsdóttir