22/12/2024

Gunnar Bragi – Ásdís Jóns

Nú er tippleikur strandir.saudfjarsetur.is að nálgast lokatörnina. Keppendur helgarinnar eru þau Gunnar Bragi Magnússon frá Ósi og Ásdís Jónsdóttir, oft betur þekkt sem Snúlla, á Hólmavík. Spárnar gerast varla ólíkari en einmitt núna – kempurnar eru ósammála um níu leiki af þrettán. Gunnar Bragi spáir allmörgum útisigrum og hótar bréfsendingum til þeirra liða sem svíkja hann. Ásdís velur hins vegar merki á leikina með allsérstökum leiðum. Meðal þess sem hún notar sem viðmið er bíll sem tengdasonur hennar átti einu sinni, ein af viðkomuhöfnum Titanic, vinnusemi og nöfn Sigga og Nonna Villa og stríðsbókalestri. Einnig spáir hún Sunderland tapi því þeir ráku framkvæmdastjóra sem henni fannst afar líkur Ása á Hnitbjörgum. Spár og umsagnir helgarinnar má sjá hér fyrir neðan:

1. Bolton – Man. Utd

Gunnar: Mínir menn í Man. Utd. sigra þetta enda búnir að vinna sjö leiki í röð. Tákn: 2.

Ásdís: Ég ætla að hafa þetta frekar einfalt þannig að öll liðin sem spila á heimavelli vinni 2-0. Þannig að Bolton vinnur M.U. með yfirburðum. Eiður Smári spilaði einu sinni með Bolton og nú er röðin komin að þeim að sigra. Tákn: 1.

+++

2. Newcastle – Tottenham

Gunnar: Totttenham eru með skemmtilegt lið og eiga ekki erfitt með að sigra Owen laust Newcastle. Tákn: 2.

Ásdís: Las einu sinni stríðsbók sem gerðist í Newcastle. Tottenham er líka frámunalega asnalegt nafn á liði. Tákn: 1.

+++

3. Arsenal – Aston Villa

Gunnar: Arsenal eru miklu stuði eftir meistaradeildina og eru ekkert að klikka núna. Tákn: 1.

Ásdís: Ég ætla að gera undantekningu hér en þori ekki að spá ekki öðru en jafntefli því annars verður Jón sonur minn fúll. Ég held að Arsenal sé hans uppáhaldslið. Hinsvegar minnir Aston Villa á Nonna Villa og Sigga Villa og þeir vinna og vinna. Tákn: X.

+++

4. Fulham – Portsmouth

Gunnar: Portsmouth eru búnir að vera í fantaformi og eiga eftir að valta yfir Heiðar og félaga í Fulham. Tákn: 2.

Ásdís: Ekkert áhugavert um þessi lið að segja. Tákn: 1.

+++

5. Everton – Sunderland

Gunnar: Sunderland fellur í dag. Tákn: 1.

Ásdís: Sunderland rak framkvæmdastjórann sinn sem er ótrulega líkur Ása á Hnitbjörgum. Það veit ekki á gott fyrir liðið. Tákn: 1.

+++

6. Reading – Derby

Gunnar: Reading rústa Derby og sýna þannig og sanna að þeir eru langbestir í fyrstu deild. Tákn: 1.

Ásdís: Reading reddar því. Tákn: 1.

+++

7. Stoke – Sheff. Utd.

Gunnar: Sheff. Utd. langar upp og Stoke er ekki mikil fyrirstaða fyrir þeim. Tákn: 2.

Ásdís: Stoke er í eigu Íslendinga. Það gefst örugglega vel. Tákn: 1.

+++

8. Coventry – Preston

Gunnar: Preston munu sækja allan leikinn en Coventry nær einu stigi og verða sælir með það. Tákn: X.

Ásdís: Ekki spurning… Liðið hans Adda míns. Tákn: 1.

+++

9. Plymouth – Wolves

Gunnar: Úlfarnir klikkuðu hjá mér seinast en þeir klikka ekki aftur – svo mikið er víst – annars mun ég senda mjög alvarlegt bréf til þeirra. Tákn: 2.

Ásdís: Haddi átti einu sinni bíl sem hét Plymouth Volare og vann sparaksturskeppni á ofsahraða, flott nafn. Tákn: 1.

+++

10. Southampton – Cardiff

Gunnar: Southampton verða allir í vörn og leikurinn þar af leiðandi hundleiðinnlegur en þeir ná þó jafntefli. Tákn: X.

Ásdís: Titanic kom við í Southampton á síðustu siglingu sinni. Tákn: 1.

+++

11. Norwich – Leicester

Gunnar: Norwich eru í töff búningum og sigra því. Tákn: 1.

Ásdís: Allt er best í norðrinu. Tákn: 1.

+++

12. Luton – Ipswich

Gunnar: Liðin eru jöfn að stigum í deildinni svo að þau hjóta að vera jafn góð. Því verður jafntefli. Tákn: X.

Ásdís: Luton er á heimavelli. Tákn: 1.

+++

13. Sheff. Wed. – Burnley

Gunnar: Sheff. Wed. ætla sér ekki að falla og sýndu það um seinustu helgi með sigri á Úlfunum. Þeir eru ekki hættir því núna ætla þeir að sýna Burnley hvar Davíð keypti ölið. Tákn: 1.

Ásdís: Ahhh.. síðustu liðin. Gott. 2-0. Tákn: 1.

+++

Ásdís: Ég hef varla komist í hann krappari en fer nú að athuga þetta betur – skoða hverjir eru með sætustu leikmennina o.s.frv.