22/12/2024

Guðrún Magnúsdóttir vann Íslandsgönguna

Guðrún Magnúsdóttir á Stað í Steingrímsfirði sigraði um síðustu helgi í mótaröðinni Íslandsgangan en þar er keppt í skíðagöngu. Þá var Fossavatnsgangan haldin á Ísafirði, en hún var lokamótið í Íslandsgöngunni. Alls tóku 177 þátt í göngunni sem gerir hana að fjölmennasta skíðagöngumóti sem haldið hefur verið á Íslandi. Í þessum hópi voru 23 Strandamenn. Þau sem náðu í verðlaunasæti voru: 

7 km karlar:

1. Þórhallur Aron Másson
2. Kristján Páll Ingimundarson
3. Ólafur Orri Másson 

7 km konur:

2. Þórdís Karlsdóttir
3. Sigrún Björg Kristinsdóttir

50 km konur 16-34 ára

1. Guðrún Hildur Magnúsdóttir 

50 km karlar 35-49 ára

3. Birkir Þór Stefánsson

Í kvennaflokki Íslandsgöngunnar sigraði Guðrún Magnúsdóttir, en hún var í fyrsta sæti í öllum fjórum Íslandsgöngunum og var jafnframt fyrsta konan í sögu Íslandsgöngunnar sem lýkur þremur göngum eða fleiri í lengstu vegalengd. 

Í flokki karla 16-34 ára varð Ragnar Bragason í 2. sæti og í flokki karla 35-49 ára varð Birkir Þór Stefánsson í 2. sæti aðeins einu stigi á eftir Einari Yngvasyni frá Ísafirði. Einar situr í trimmnefnd SKÍ og sá um að afhenda verðlaun fyrir Íslandsgönguna, og af þekktri hógværð sinni hélt hann að Birkir hefði unnið flokkinn og afhenti honum því sigurlaunin. Þeir félagar munu væntanlega hafa skipti á bikurum við fyrsta tækifæri.

Annars urðu stigameistarar Íslandsgöngunnar 2006 eftirtaldir:

Karlar 16-34 ára: Andri Steindórsson, Akureyri
Konur 16-34 ára: Guðrún Hildur Magnúsdóttir, Strandasýslu
Karlar 35-49 ára: Einar Ágúst Yngvason, Ísafirði
Konur 35-49 ára: Rannveig Halldórsdóttir, Ísafirði
Karlar 50 ára +:   Magnús Eiríksson, Siglufirði

Ljósm. Ingimundur Pálsson