05/05/2024

Góður árangur á Vestfjarðamóti

Á vef Skíðafélags Strandamanna kemur fram að góður hópur Strandamanna hélt til Ísafjarðar um síðustu helgi til að keppa á Vestfjarðamóti í lengri vegalengdum fyrir 13 ára og eldri og á Púkamóti Glitnis fyrir 12 ára og yngri. Keppnin hófst með Vestfjarðamótinu á laugardagsmorgni og náði Birkir Stefánsson í Trölltungu þeim árangri í 30 km göngu karla að koma langfyrstur í mark í flokki 35-49 ára og var hann á mjög góðum tíma og 5 mínútum á undan næsta keppanda. Birkir er greinilega í frábæru formi þessa dagana sem lofar góðu fyrir Vasagönguna um næstu helgi. Ragnar Bragason á Heydalsá sigraði einnig í flokki 20-34 ára í 30 km göngu og varð Vestfjarðameistari eins og Birkir.

Þá varð Rósmundur Númason í 6. sæti í flokki karla 50 ára og eldri en þeir gengu 20 km. Úrslitin í heild sinni er að finna á heimasíðu Skíðafélags Ísfirðinga – www.snjor.is.

Að Vestfjarðamótinu loknu hófst keppni í Púkamóti Glitnis eftir hádegið með hefðbundinni skíðagöngu. Þar tóku 11 krakkar af Ströndum þátt og stóðu þau sig öll frábærlega vel.  Á sunnudeginum fóru krakkar 8 ára og yngri í leikjabraut, en 9-12 ára kepptu í tvíkeppni þar sem fyrst var genginn einn hringur með hefðbundinni aðferð og síðan skipt um skíði og genginn annar hringur með frjálsri aðferð.