22/12/2024

Gistingin á Kirkjubóli opnuð aftur

KirkjubólGistihúsið á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð var opnað aftur í dag og fyrstu gestirnir eru komnir í hús. Ekki hefur verið seld gisting þar frá því snemma í mars, vegna þess að fjölskyldan á Kirkjubóli hefur búið í gistihúsinu eftir brunatjón sem varð í íbúðarhúsinu. Ester Sigfúsdóttir, gestgjafi á Kirkjubóli, segir í viðtali við tíðindamann strandir.saudfjarsetur.is ósköp gott að starfsemin sé aftur komin í gang. Töluvert hafi verið spurt eftir gistingu síðustu daga og bókunarstaðan fyrir sumarið sé mjög góð. Nú eru framundan frekari framkvæmdir við að auka gistirýmið á Kirkjubóli, en ennþá er stefnt að því að þeim verði lokið fyrri hluta júnímánaðar þrátt fyrir þessar tafir sem hafa orðið.

Ester segir að það sé örugglega ágætt fyrir alla sem selja gistingu, að gista öðru hvoru hjá sjálfum sér til að sjá hvað betur megi fara. Hún vill einnig koma á framfæri þakklæti til allra sem lagt hafa hönd á plóg og hjálpað til við flutninga, hreinsun og uppbyggingu á Kirkjubóli síðustu vikur.

Kirkjuból við Steingrímsfjörð – ljósm. Jón Jónsson