22/12/2024

Gaman á Reykjaskóla

Núna erum við krakkarnir í 6. og 7. bekk í Grunnskólanum á Hólmavík komin aftur heim úr Skólabúðunum á Reykjum. Stína kennari (Kristín Einarsdóttir) var með okkur allan tímann. Hún bjó ein í herbergi, en við krakkarnir voru 3 eða 4 saman. Það var mikið fjör. Við vorum á sundlaugarvistinni. Daginn sem við komum mættum við í íþróttahúsið eftir matinn og þar var okkur skipt í 6 hópa. Hver hópur fór svo út af fyrir sig í kennslustundir og í hópunum voru líka krakkar frá Ísafirði og Suðureyri og Þingeyri og Bolungarvík. Við héldum kvöldvökur, fórum í hópmyndatöku og ratleik, héldum hárgreiðslukeppni, fórum á Byggðasafnið og í sveitina til Skúla á Tannstaðabakka, fórum í fullt af tímum í náttúrufræði og fleiru, átum alveg helling af mat sem var oftast góður og skemmtum okkur mjög vel.

Ólafur Orri og Magnús Ingi bíða eftir matnum í matsalnum.

Kýr í fjósinu hjá Skúla á Tannstaðabakka.

Gústaf með nýja hárgreiðslu í hárgreiðslukeppninni – Arna og Hadda í baksýn.

Stelpurnar sem voru með mér í herbergi – Agnes, Anna Lena og Guðbjörg

Guðbjörg í rútunni.

Hluti af því sem við söfnuðum í fjörunni – krabbi og skeljar.

Birna Karen og Hadda að kemba á Byggðasafninu. Þar er fullt af dóti úr Strandasýslu.

Allur hópurinn samankominn í íþróttasalnum í hópmyndatöku.

Ljósm. og frétt: Dagrún Ósk Jónsdóttir, 7. bekk Grunnskólans á Hólmavík