22/12/2024

Galdramönnum boðið til Noregs

Galdramenn af Ströndum leggja upp í ferðalag til Finnmerkur í Noregi þann 17. ágúst n.k., en í bænum Vardö sem er eitt nyrsta byggðarlag Noregs og jafnframt það austasta, er áhugi meðal fólks að kynna sér verkefni Strandagaldurs og koma upp svipuðu verkefni þar um slóðir og unnið hefur verið að á Ströndum undanfarin ár. Sigurður Atlason og Ólafur Ingimundarson munu fara þangað út og kynna verkefnið. Að sögn þeirra þá urðu íbúar Vardö og nágrennis harkalega fyrir galdraofsóknum á sínum tíma en um 30 manns voru brenndir þar á báli á 17. öld, en íbúar þar voru þá einungis á milli 200 og 300, svo það hefur verið veruleg blóðtaka fyrir ekki stærra samfélag.

Undanfarin ár hefur Hexeria as sem er ferðaskrifstofa í Vardö og hefur sérhæft sig í ævintýraferðum um héraðið skipulagt ráðstefnu um galdra hvert haust með fulltingi kunnra fræðimanna á því sviði í Noregi. Fulltrúum Strandagaldurs hefur nú verið boðið á ráðstefnuna og stefnt er að samstarfi milli Strandagaldurs og Hexeria, en ræddir verða m.a. möguleikar á samstarfi sem leiði svo til sameiginlegs Evrópuverkefnis. Dagskrá Galdraráðstefnunnar í Vardö er að finna hér.