22/12/2024

Galdramenn á Ströndum í Noregi

Tveir fulltrúar Strandagaldurs eru nú í Norður-Noregi til að vera vera viðstaddir Heksekonferansen í Vardö. Það er heilmikil ráðstefna um galdrafárið á öldum áður. Ráðstefnan stendur yfir frá fimmtudegi fram á laugardagskvöld. Þar munu tala margir helstu sérfræðingar um galdra og koma víðsvegar að úr heiminum. Magnús Rafnsson sagnfræðingur og stjórnarformaður Strandagaldurs mun fjalla um íslensk galdramál og meðal annarra má nefna Brian P. Levack frá Texas háskóla einn helsti sérfræðingur á þessu sviði í heiminum, en alls taka tuttugu og fimm fræðimenn þátt í ráðstefnunni.

Einnig verða hverskyns uppákomur í Vardö þessa daga. Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs mun m.a. framkvæma galdragjörning frammi fyrir norskum lýð. Þeir galdramenn af Ströndum munu svo snúa til sinna heima strax eftir næstu helgi.

Þetta verður í þriðja sinn sem Strandagaldur tekur þátt í þessari ráðstefnu. Slóðin inn á heimasíðu hennar er www.heksekonferansen.no. Vefur Strandagaldurs er á slóðinni www.galdrasyning.is.