14/12/2024

Fyrirtæki mánaðarins á Vestfjörðum

Frá HólmavíkÍ fréttatilkynningu frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða (ATVEST) kemur fram að félagið hefur ákveðið að tilnefna eitt fyrirtæki á Vestfjarðakjálkanum í hverjum mánuði sem FYRIRTÆKI MÁNAÐARINS og veita því sérstaka viðurkenningu. Þetta er gert í þeim tilgangi að hrósa þeim fyrirtækjum sem eru að vinna að verðmætasköpun og hvetja þau og önnur fyrirtæki til frekari árangurs. Eins er þetta gert til að sýna fram á þá miklu grósku og þekkingu sem býr í einstaklingum og fyrirtækjum á Vestfjörðum. 

ATVEST óskar vegna þessara viðurkenninga eftir ábendingum frá lesendum strandir.saudfjarsetur.is og biður þá að senda póst á greta@atvest.is eða hringja í 450-3000 og koma sinni tilnefningu á framfæri. Jafnframt eru lesendur beðnir um að tilgreina helstu ástæður fyrir tilnefningunni. Fyrsta viðurkenningin er fyrir ágústmánuð og verður kynnt í byrjun september. Það er því um að gera að hafa samband sem fyrst.

Það fyrirtæki sem verður tilnefnt hverju sinni, fær sérstaka umfjöllun á vef ATVEST og í fjölmiðlum. Atvinnuþróunarfélagið vonast til að lesendur taki þessu vel og sýni áhuga sinn og samstöðu í því að benda á sterk, framsækin og flott vestfirsk fyrirtæki, enda sé öflugt atvinnulíf er hagur okkar allra.