22/12/2024

Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel

Í haust hefur Gönguklúbburinn Gunna fótalausa staðið fyrir vikulegum skemmtigöngum í skammdeginu í nágrenni Hólmavíkur. Göngurnar eru farnar í hádeginu til að nýta birtuna og nú er tugur slíkra gönguferða að baki. Í dag var rölt upp á sjónvarpshæðina ofan við Skeljavík, á sólhvörfum að vetri, en úr þessu fer daginn aftur að lengja. Sjá má á meðfylgjandi myndum að birtan var ekki mikil, en auk þess var 10 stiga frost. Það gekk á með éljum og vindkælingin var veruleg. Skemmtigöngurnar eru hugsaðar sem útivist og hressingargöngur fyrir alla sem vilja rölta með og snúast reyndar ekki síður um félagsskapinn og geðheilsuna. Gönguklúbburinn Gunna fótalausa hefur höfuðstöðvar á fésbókinni og auglýsir gönguferðir þar.

640-solhvorf6 640-solhvorf5 640-solhvorf4 640-solhvorf3 640-solhvorf2 640-solhvorf1

Skemmtigöngur í skammdeginu – ljósm. Jón Jónsson