30/10/2024

Fundur um fornleifavernd

Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist fréttatilkynning um fund um fornleifavörslu hér á landi sem haldin verður á Café Riis á Hólmavík miðvikudaginn 29. júní og hefst kl. 15:30. Tilkynningin er svohljóðandi: "Menntamálaráðuneytið hefur falið Fornleifavernd ríkisins umsjón með stefnumótun á sviði fornleifavörslu á Íslandi. Þetta verkefni er mjög brýnt, þar sem lagalegt umhverfi minjavörslu breyttist töluvert með lögum nr. 107/2001. Myndaður hefur verið stýrihópur verkefnisins. Hann skipa Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og Sólveig Georgsdóttir verkefnisstjóri. "

"Fornleifavarsla er umfangsmikið starfssvið sem snertir, auk minjavörslu og fornleifarannsókna, framkvæmdir ýmiss konar, landbúnað, skógrækt, samgöngur, menningartengda ferðaþjónustu og fræðslumál, auk kirkju og kirkjugarða, svo eitthvað sé nefnt.
       
Fornleifavernd ríkisins býður til umræðufundar um málefni fornleifavörslu miðvikudaginn 29. júní n.k. Fundurinn verður haldinn á Café Riis á Hólmavík og hefst kl. 15.30.

Fundarefni er m.a. kynning á lagaumhverfi fornleifavörslu og umræður um ýmis málefni sem tengjast minjavörslu og framkvæmd hennar. Á fundinum gefst einnig tækifæri til að ræða áhrif minjaverndar og minjavörslu á svæðinu og aðrar aðstæður sem þarf að hyggja sérstaklega að.

Allir velkomnir."