22/12/2024

Friðaðar kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi

Út eru komnar bækurnar Friðaðar kirkjur í Húnvatnsprófastdæmi I og II sem tilheyra ritröðinni Kirkjur Íslands (7. og 8. bindi). Í þessum bókum er fjallað um allar friðaðar kirkjur í Húnavatnsprófastsdæmi – samtals tíu kirkjur á Ströndum og í Vestur-Húnavatnssýslu og níu kirkjur í Austur-Húnavatnssýslu. Kirkjurnar á Ströndum sem fjallað er um eru Kollafjarðarneskirkja, Staðarkirkja, Kaldrananeskirkja og Árneskirkja. 

Ritröðin Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi, segir í fréttatilkynningu, þar sem horft er á kirkjurnar frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Höfundar eru Guðmundur L. Hafsteinsson, Guðrún Harðardóttir, Guðrún Jónsdóttir, Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson, Jón Jónsson, Þorgeir Jónsson, Þorsteinn Gunnarsson, Þór Magnússon, Þór Hjaltalín og Unnar Ingvarsson.

Timburkirkjurnar á Ströndum eru með elstu kirkjum landsins. Árneskirkja er elst, frá 1850. Kaldrananeskirkja geymir smíðisgripi Einars Gíslasonar á Sandnesi og Staðarkirkja í Steingrímsfirði kaleik og patínu sem Sigurður Þorsteinsson smíðaði 1746. Kollafjarðarneskirkja er steinsteypt, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni.

Í vesturhluta Húnavatnssýslu er Staðarkirkja í Hrútafirði, smíðuð af Sigurði Sigurðssyni, skreytt á sérstæðan hátt. Halldór Bjarnason smíðaði Staðarbakkakirkju og Víðidalstungukirkju en sonur hans, Vilhjálmur, Breiðabólstaðarkirkju. Í Víðdalstungu er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson, á Staðarbakka minningarskjöldur eftir séra Svein Níelsson, en kaleikur og patína á Breiðabólsstað sem Helgi Þórðarson á Brandsstöðum smíðaði. Kirkjuhvammskirkja er sérstök, ómáluð að innan og í Vesturhópshólakirkju er prédikunarstóll í barokkstíl sem Guðmundur í Bjarnastaðahlíð smíðaði.

Í Austur-Húnavatnssýslu er Þingeyrakirkja, meistaraverk Sverris Runólfssonar steinsmiðs, hlaðin 1864–1877. Meðal dýrgripa eru prédikunarstóll og skírnarfontur, frá lokum 17. aldar, altarisbrík af alabastri frá 15. öld með umgerð og yfirmynd eftir Guðmund Pálsson myndskera. Hofskirkja er elsta timburkirkja sýslunnar, smíðuð 1869–1870 af Sigurði Helgasyni forsmið. Þorsteinn Sigurðsson smíðaði sex kirkjur í sýslunni, þeirra sérkennilegust er Auðkúlukirkja sem geymir altaristöflu frá 18. öld eftir séra Jón Björnsson. Blönduóskirkja er eitt höfuðverk Þorsteins. Holtastaðakirkja geymir kaleik og patínu frá 16. öld, en Bergsstaðakirkja altaristöflu frá 1648. Í Bólstaðarhlíðarkirkju og í Svínavatnskirkju eru silfurgripir eftir Arnór Arnórsson á Gauksmýri og í Undirfellskirkju, sem teiknuð er af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara, er tafla eftir Ásgrím Jónsson.

Bækurnar eru prýddar fjölda ljósmynda, sem ljósmyndararnir Guðmundur Ingólfsson, Ímynd, og Ívar Brynjólfsson á Þjóðminjasafni hafa tekið, ásamt teikningum af kirkjunum.