08/05/2024

Framkvæmdastjóri AtVest lætur af störfum

Framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Þorgeir Pálsson, hefur sagt upp störfum hjá félaginu og hefur náðst samkomulag milli hans og stjórnar um starfslok. Hann lætur af störfum 29. október.  AtVest hefur átt undir högg að sækja að undanförnu vegna niðurskurðar og tekjumissis og ljóst að umfang starfseminnar um alla Vestfirði er meira en framlög og aðrar tekjur félagsins leyfa. Því óskaði Þorgeir eftir því að láta af störfum og samþykkti stjórn þá ósk hans. Stjórnin þakkar Þorgeiri samstarfið og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. 

Stjórn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hefur af þessum sökum leitað til stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um tímabundna aðkomu að framkvæmdastjórn félagsins. Á fundi stjórnar Fjórðungssambandsins í dag 29. október var sú beiðni samþykkt. Hefur stjórn sambandsins falið framkvæmdastjóra Fjórðungssambandsins, Aðalsteini Óskarssyni að taka tímabundið við framkvæmdastjórn Atvinnuþróunarfélagsins, samhliða núverandi störfum.