22/12/2024

Fræðslukvöld um barnsmissi í Hólmavíkurkirkju 1. nóvember


Fræðslukvöldi um barnsmissi verður haldið í Hólmavíkurkirkju fimmtudagskvöldið 1. nóvember kl. 20:00. Um er að ræða fræðslu og spjallkvöld í notalegu umhverfi, ætlað fagfólki, foreldrum og öðrum aðstandendum. Flutt verður fræðsluerindi og síðan gefst færi á að spjalla, deila reynslu sinni eða fá svör við fyrirspurnum. Fræðsluerindið flytur Hildur Jakobína Gísladóttir félagsmálastjóri, stofnandi samtakanna Litlir englar. Allir eru hjartanlega velkomnir. Rauði kross Íslands – Strandasýsludeild, Hólmavíkurkirkja, Reykhólahreppur og sveitarfélagið Strandabyggð styrkja fræðslukvöldið. Það hafði áður verið auglýst í kvöld miðvikudagskvöldið 24. október en var frestað, þar sem það rakst á við áður auglýstan fyrirlestur um netfíkn.

Um samtökin litlir englar (af heimasíðunni litlirenglar.is):
 
Samtökin Litlir englar eru ætluð þeim sem hafa misst börn sín í móðurkviði, í fæðingu eða stuttu eftir fæðingu sem og þeim sem að þurfa að binda enda á meðgönguna vegna alvarlegs fæðingargalla barns síns. Síðan er einnig ætluð þeim sem misst hafa börn sín einhvern tímann á lífsleiðinni sem og þeim sem einhverra hluta vegna telja sig þurfa á síðunni að halda. Samtökin voru stofnuð þann 26. janúar 2002 af Hildi Jakobínu Gísladóttur, móður lítils engils.
 
Að missa barnið sitt er án efa einn erfiðasti atburður lífs okkar. Eftirvæntingin eftir ófæddu barni okkar er mikil og spennan vex með degi hverjum og konan sem gengur með barnið finnur alltafa einherja nýja tilfinningu sem hún deilir með maka sínum. En því miður er ekki öllum börnium okkar ætluð framtíð í þeim heimi sem við búum í og eins sárt og það er nú, deyja þau frá okkur. Eftir sitjum við með brostið hjarta, tíma vöggu og milljón spurningar sem oft enginn getur svarað. Þessi lífsreynsla er erfið og gott er að geta talað við einhvern náinn eða jafnvel einhvern hlutlausan sem að veitir huggun og það er gott að geta talað mikið um tilfinningar sínar þegar svo á stendur.