14/10/2024

Frá Bakkagerði til Brasilíu

Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir hafa í áratugi stundað rannsóknir á fuglum á Ströndum og merkt fjölda fugla. Í júlí 2009 merktu þau til að mynda 290 kríuunga á Ströndum, þar af 143 í Bakkagerði. Nú hafa þau fengið tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun um endurheimta kríu og var þar kominn einn unganna frá Bakkagerði. Tilkynningin kom alla leið frá Brasilíu og er um að ræða fyrstu endurheimtu íslenskrar kríu frá Suður-Ameríku. Krían fannst 9996 kílómetra frá merkingarstaðnum í Bakkagerði.

Fuglamerkingar eru forsenda vitneskju um farleiðir, vetrarstöðvar, aldur, lífslíkur, veiðiálag, stofnvísitölu o.s.frv. Allt byggist þó á því að fundnum merkjum sé skilað. Fáar íslenskar kríur hafa endurheimst erlendis (15) og allar nema ein frá Vestur-og Suður-Afríku. Þetta stafar e.t.v. af því að farleið þeirra liggur um Atlantshaf fjarri ströndum, en eins og kunnugt er eru vetrarstöðvar kríunnar í Suður-Íshafi. 

Kríurnar koma að Suðurskautslandinu austanverðu og hugsanlegt er talið að þær fljúgi nær hring um Suðurskautslandið til vesturs meðan á dvöl þeirra stendur syðra og hefji heimflugið úr Weddelhafi fyrrihluta mars. Talið er að krían fljúgi amk. 40.000 km milli varp- og vetrarstöðva og lengra ef hún fer hringinn um Suðurskautslandið. (Guðmundur A. Guðmundsson 1996. Ferð kríunnar heimskautanna á milli. Bliki 17: 24-26)

Tilkynningin er svohljóðandi:
 
Hringnúmer               Reykjavík 771203  [Alþjóðleg merkingastöð]
Tegund                       Kría – Sterna paradisaea
Kyn                              Óþekkt
Aldur                           Ófleygur ungi
Merkingardagur       19.07.2009
Merkingarstaður      Bakkagerði, Kaldrananeshr., Strand.
Staðarákvörðun       65°42´00´´N  21°25´00´´V
Merkjandi                  Jón Hallur Jóhannsson & Björk Guðjónsdóttir
——————————————————————————————
Fundardagur           24.10.2010
Fundarstaður          Praia do Pero, Cabo Frio, Rio de Janeiro state, Brazil
Staðarákvörðun      22°51´38´´S 41°59´11´´V
Endurheimtuatvik      Fundinn illa haldinn, drapst
Finnandi                   Jailson Fulgencio de Moura

Fjarlægð: 9996 km.  Stefna: 199°.  Tími: 462 dagar.  Tilk.: Tölvupóstur.
——————————————————————————————-