02/05/2024

Forvarnardagurinn á Hólmavík

Í dag 28. september er forvarnadagur í grunnskólum landsins. Forvarnadagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands og er þetta í fyrsta skipti sem það er gert. Að þessu sinni er lögð áhersla á þrjú heillaráð til að forða börnum og unglingum frá fíkniefnum. Í fyrsta lagi að foreldrar og börn verji sem mestum tíma saman, í öðru lagi eru börn og unglingar hvött til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og í þriðja lagi er unglingum bent á að sniðganga áfengi sem lengst, því hvert ár skiptir máli.

Nemendur í 8., 9. og 10. bekk Grunnskólans á Hólmavík tóku virkan þátt í forvarnardeginum í dag því haldin var vegleg ráðstefna í skólanum og tókst í alla staði vel. Gestir frá Ungmennafélaginu Geislanum, Héraðssambandi Strandamanna, Lögreglunni á Hólmavík, Félagsmiðstöðinni OZON, Heilbrigðisstofnuninni Hólmavík, Rauða krossdeild Strandasýslu og Björgunarsveitinni Dagrenningu fluttu erindi sín á ráðstefnunni Þá fluttu nemendur í 9. og 10. bekk tónlist og léku frumsamið leikverk við góðar undirtektir.

Fræðast má um verkefnið á vefnum www.forvarnardagur.is.