22/12/2024

Fjórtán lið í Spurningakeppni Strandamanna

Skráningu í Spurningakeppni Strandamanna árið 2007 lauk í dag. Alls skráðu fjórtán lið sig til keppni, sem er tveimur fleiri en í fyrra. Þetta árið fer spurningakeppnin fram í fimmta skipti og stjórnandi, spyrill og spurningahöfundur er Arnar S. Jónsson frá Steinadal. Fyrsta keppniskvöldið verður nk. sunnudagskvöld, þann 11. febrúar og hefst það kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Allnokkur nýliðun er í keppninni að þessu sinni þó flest liðin séu þrautreynd. Þannig taka Ferðaþjónustan Kirkjuból, Sundfélagið Grettir og Umf. Neisti á Drangsnesi þátt í fyrsta skipti, Vegagerðin keppir í fyrsta sinn síðan árið 2003 þegar keppnin var fyrst haldin og Skrifstofa Strandabyggðar keppir að sjálfsögðu undir nýju nafni eftir sameiningu í vor.

Annars er ekki mikið vitað um liðsskipan og mörg liðanna vilja bíða fram á síðustu stundu með að tilkynna sín lið. Það er þó ekkert hernaðarleyndarmál að tvö lið koma frá Drangsnesi, eitt frá Bjarnarfirði og eitt úr Tungusveit til að taka þátt í keppninni, en annars eru öll liðin frá Hólmavík. Tvö lið hafa keppt óbreytt frá upphafi; Skrifstofa Strandabyggðar og Strandahestar og samkvæmt upplýsingum eru allar líkur á að sama fólkið skipi þessi lið í ár. Það stefnir því í æsispennandi keppni milli snjallra Strandamanna í febrúar og mars.

Dregið verður í keppninni í dag og drátturinn að sjálfsögðu birtur hér á strandir.saudfjarsetur.is innan tíðar.

Eftirfarandi lið taka þátt í keppninni (hér í stafrófsröð):
1) Ferðaþjónustan Kirkjuból
2) Félag eldri borgara
3) Grunnskólinn á Drangsnesi
4) Heilbrigðisstofnunin Hólmavík
5) Hólmadrangur
6) Kaupfélag Steingrímsfjarðar
7) Kennarar Grunnskólanum á Hólmavík
8) Leikfélag Hólmavíkur
9) Skrifstofa Strandabyggðar
10) Sparisjóður Strandamanna
11) Strandahestar
12) Sundfélagið Grettir
13) Ungmennafélagið Neisti
14) Vegagerðin