22/12/2024

Fjör á félagsvist

Fjórir ásar á hendiTöluvert af fólki mætti á spilavist sem Foreldrafélag Grunnskólans á Hólmavík stóð fyrir um helgina. Var spilað á 15 borðum og höfðu menn gaman af. 18 spil voru spiluð enda voru óvenju margir sem voru að stíga sín fyrstu skref á framabrautinni í félagsvistinni. Var haft á orði að slíka skemmtun þyrfti að halda oftar yfir veturinn og lofaði stjórn foreldrafélagsins að beita sér fyrir því að annað kvöld yrði haldið fyrir sumarið. Vegleg páskaegg voru í verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í flokki karla og kvenna.

Í karlaflokki sigraði Reynir Björnsson í Miðdalsgröf með 144 stig í 18 spilum, Arnór Jónsson á Kirkjubóli var annar og Lýður Magnússon frá Húsavík varð í þriðja sæti. Í kvennaflokki voru efstar og jafnar Guðfríður Guðjónsdóttir í Miðdalsgröf og Dagrún Ósk Jónsdóttir á Kirkjubóli með 139 stig, en Jón Jónsson á Kirkjubóli varð þriðji. Það á sér þá skýringu að konur voru fjórum færri en karlar og spiluðu því Ingimundur Pálsson og Jón Jónsson sem konur, en þeir eru báðir stjórnarmenn í foreldrafélaginu ásamt Öldu Guðmundsdóttir.

Af setuverðlaunum og skammarverðlaunum er það helst í frásögur færandi að Jón Örn Haraldsson sat lengst við sama borð, en hann tapaði 12 spilum í röð, af þeim 18 sem spiluð voru.