22/12/2024

Fjallað um gamla barnaskólann

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar var gamli barnaskólinn á Hólmavík enn til umræðu, en sveitarstjórn hafði borist erindi frá Hafþóri R. Þórhallssyni þar sem hann lýsir áhuga á að fá gamla barnaskólann undir handverksverkstæði og verslun gegn því að koma húsinu í upprunalegt horf að utan. Er það í samræmi við friðun hússins sem menntamálaráðherra staðfesti á dögunum. Í fundargerð Strandabyggðar er Hafþóri þakkað erindið, en sagt að sveitarstjórn bíði með ákvörðun um framtíð skólans þar til deiliskipulag af svæðinu liggur fyrir og er stefnt að því að það verði fljótlega.

Í fundargerð sveitarstjórnar kemur einnig fram að Húsafriðunarnefndar mótmælti með bréfi þann 14. desember þeirri samþykkt sveitarstjórnar að vinnubrögð nefndarinnar hafi verið óvönduð. Í bréfi Húsafriðunarnefndar frá í sumar hafi hún mælt gegn niðurrifinu, en lagt til að gert yrði deiliskipulag fyrir svæðið í staðinn. Telur Húsafriðunarnefnd að ef sveitarfélagið hefði á þeim tíma orðið við fyrirmælum hennar hefði ekki þurft að koma til skyndifriðunar. Í fundargerðinni kemur fram að sveitarstjórn telur sig ekki geta véfengt þau rök Húsafriðunarnefndar.