14/09/2024

Á hamingjudögum verður hamingjulagið í ár

Í gærkvöld var haldin heilmikil dægurlagasamkeppni fyrir bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík sem verður 29. júní – 2. júlí í sumar. Troðfullur salur af fólki fylgdist með og allir skemmtu sér konunglega. Ellefu lög kepptu um að verða hamingjulagið í ár og komu fram mörg bráðskemmtileg og vel gerð lög. Yngsti lagahöfundurinn í keppninni, Daníel Birgir Bjarnason á Hólmavík, sem er aðeins 12 ára bar sigur úr býtum með laginu Á hamingjudögum í flutningi Bjarna Ómars Haraldssonar og Aðalheiðar Lilju Bjarnadóttur.

Giskað er á að vel á þriðja hundrað hafi mætt á skemmtunina sem líklegt er að verði endurtekin að ári í ljósi góðra viðbragða. Höfundar komu fram undir dulnefnum þar til kosningu var lokið, en áhorfendur 12 ára og eldri kusu sigurlagið eftir að hafa heyrt lögin flutt.

Keppnin og lögin voru bráðskemmtilegt og rétt er að skjóta því að aðstandendum Hamingjudaga að það væri vel til fundið að gefa út disk með þessum lögum eða brenna upptöku af keppninni sjálfri á dvd-disk og selja.  

Kynnir, keppendur, lagahöfundar og áhorfendur – stórfín skemmtun þar sem allir leggjast á eitt.

Ljósm. Jón Jónsson