30/10/2024

Fimm manna sveitarstjórn?

Kynningar- bæklingur um sameiningu sveitarfélaga er farinn í dreifingu en í honum er m.a. lagt til að 5 manna sveitarstjórn fari með stjórn nýs sveitarfélags, verði ákveðið svo. Þá er lagt til að staðsetning yfirstjórnar verði á Hólmavík og lögð er áhersla á að virkja íbúalýðræði og auka upplýsingaflæði svo stjórnsýslan verði öll sýnilegri. Einnig kemur fram í skýrslunni að samstarfsnefndin leggur til að haldin verði samkeppni um nafngift nýs sveitarfélags. Samstarfsnefndin leggur áherslu á að efla starf grunnskóla og nefnir sérstaklega að vegna sérstöðu Árneshrepps verði lögð áhersla á að viðhalda þar grunnskólakennslu meðan þörf er.

Kynningarpésinn með tillögum sameiningarnefndar fjögurra nyrstu sveitarfélaga á Ströndum fer í dreifingu í dag en samkvæmt tillögu sameiningarnefndar félagsmálaráðherra var viðkomandi sveitarfélögum gert skylt að tilnefna tvo fulltrúa hvert í samstarfsnefnd sem skyldi m.a. sjá um gerð kynningarefnis um áhrif hugsanlegrar sameiningar.