26/04/2024

Fimm fámennustu sveitarfélögin

Í kjölfarið á þeirri útreið sem tillögur nefndar um sameiningu sveitarfélaga fengu í kosningum um land allt í gær, að Austfjörðunum undanskildum, velta nú margir fyrir sér framhaldinu og stöðu mála. Þegar hafa heyrst raddir um það frá stjórnmálamönnum að hækka lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum og hafa þá heyrst tölur um að hækka kröfurnar þannig að lágmarkið verði 400, 500 eða 1000 manns. Um síðustu áramót voru tvö sveitarfélög á Ströndum í hópi fimm fámennustu sveitarfélaga landsins, Broddaneshreppur og Árneshreppur.

Hér á eftir gefur að líta yfirlit um fimm fámennustu hreppa landsins um síðustu áramót og einnig hver var íbúatala í þeim í árslok 2000. Eins og sjá má hefur staðan einungis batnað í einum hreppnum á þessu tímabili, Í Mjóafirði eystra, en versnað langmest í Broddaneshreppi á Ströndum.

ÍBÚAFJÖLDI    
Fimm fámennustu sveitarfélög landsins    
 

 31.des

31.des 

Hreppar

2000

2004

Árneshreppur

60

57

Broddaneshreppur

81

53

Fáskrúðsfjarðarhreppur

63

51

Helgafellssveit

56

47

Mjóafjarðarhreppur

30

38

Í kosningunum í gær var ein tillagan af 16 samþykkt í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum. Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur voru í þeim hópi sem sameinast eystra þannig að þeir heyra þá sögunni til frá og með næsta vori. Helgafellssveit er einnig undir núverandi mörkum um lágmarksfjölda íbúa sem miðast við 50 íbúa.

Í fréttum landsmiðla og vestfirskra miðla hefur undanfarið ítrekað verið sagt að Árneshreppur sé fámennasta sveitarfélagið á Ströndum. Svo er ekki, eins og sést á töflunni, íbúarnir eru færri í Broddaneshreppi, þó þar hafi fleiri verið á kjörskrá.