24/07/2024

Ferðamálasamtök Vestfjarða í Laugarhóli

Í fréttatilkynningu frá Arnari S. Jónssyni, formanni Ferðamálasamtaka Vestfjarða, kemur fram að aðalfundur samtakanna verður haldinn á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði, dagana 6.-7. maí. Stefnt er að því að dagskráin hefjist um kl. 20:00 föstudagskvöldið 6. maí með málþingi um markaðsmál á Vestfjörðum. Þar munu Neil Shiran Þórisson og Aðalsteinn Óskarsson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða kynna fyrir fundargestum vinnu og undirbúning að Markaðsskrifstofu Vestfjarða, en hugmyndin að skrifstofunni hefur þróast út frá vinnu félagsins við markaðsáætlun. Opnar umræður verða um markaðsmál eftir erindi þeirra félaga. Einnig verða á föstudagskvöldinu flutt nokkur stutt og skemmtileg erindi um hvað er að gerast í ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Kl. 10:00 á laugardagsmorgninum 7. maí verður síðan tekið til við venjuleg aðalfundarstörf. Þar verður m.a. á dagskránni tillögur að lagabreytingum, stjórnarkjör, reikningar félagsins og skýrsla stjórnar. Eftir aðalfundinn (eftir hádegi) verður haldið málþing þar sem m.a. annars verður fjallað um samgöngumál, en þar munu meðal annarra koma við sögu Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs og Helga Haraldsdóttir, deildarstjóri ferðamála í samgönguráðuneytinu. Sturla Böðvarsson hefur hins vegar boðað forföll á fundinum, en áður var sagt frá því hér á vefnum að hann væri væntanlegur.

Síðar á laugardeginum verður farið í skemmtiferð um nágrennið og um kvöldið verður árshátíð Ferðamálasamtakanna haldin með pompi og prakt. Þríréttaður kvöldverður verður í boði á Hótel Laugarhóli og að sjálfsögðu er stefnt að miklu fjöri eftir kvöldverðinn – menn og konur fá gott tækifæri til að vaka fram á rauða nótt við söng og jafnvel dans.
Allir þeir sem áhuga hafa á ferðamálum eru velkomnir á fundinn og þeir allra áhugasömustu eru eindregið hvattir til að gefa kost á sér í stjórn Ferðamálasamtakanna, en á póstlista samtakanna á ferdamal@vestfirdir.is hafa menn í dag tekið vel við sér og stungið upp á nokkrum hugsanlegum stjórnarmönnum og jafnvel boðið sig fram í stjórnina. Telja má mikilvægt að Strandamenn eigi fulltrúa í stjórn samtakanna og eru áhugamenn um ferðamál hvattir til að íhuga að bjóða sig fram í stjórn samtakanna. Arnar Jónsson mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku.