30/10/2024

Ferðamál á Ströndum

Aðsend grein: Jón Jónsson
Í þessum pistli ætla ég að tala um eitt mitt helsta áhugamál, uppbyggingu ferðaþjónustu á Ströndum. Uppbyggingu í þessari atvinnugrein síðustu 10 ár hér á Ströndum má líkja við byltingu – svo gríðarmiklar breytingar hafa orðið.

Árið 1994 var engin upplýsingamiðstöð á Ströndum, orðið Atburðadagatal hafði ekki enn verið fundið upp og hugmyndin um Galdrasýningu hafði ekki verið fest á blað. Hinn glæsilegi veitingastaður Café Riis á Hólmavík var fyrir 10 árum bara gamalt hús í niðurníðslu, engar bátsferðir eða hestaferðir voru í boði og engar gönguleiðir höfðu verið merktar. Engum hafði heldur dottið í hug að kalla sauðfjárbúskap Strandamanna sögulega sérstöðu og merkilegan menningararf.

ÁHRIF FERÐAÞJÓNUSTUNNAR

Uppbygging ferðaþjónustunnar hefur líka haft afar jákvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf hér. Þjónusta við ferðamenn er nefnilega um leið þjónusta við heimamenn. Og uppbyggingin skiptir verulegu máli í samfélagi þar sem öll störf og möguleikar á aukatekjum eru mikilvæg. Á Ströndum er nú hægt að velja á milli 12 gististaða yfir sumartímann og 7 tjaldsvæða. Og það eru ekki bara gististaðir sem hafa mikilvægar tekjur af ferðaþjónustunni. Veitingastaðir, handverksfólk, verslanir og verkstæði eiga líka verulegra hagsmuna að gæta. Íbúar á Ströndum eru aðeins 830 og það sér hver hugsandi maður hve ferðaþjónustan skiptir miklu máli í atvinnulífinu í svo fámennri byggð.

580-10fuglar14

Ferðaþjónustan er líka öll að styrkjast. Menningartengda ferðaþjónustan hefur til dæmis blómstrað. Þar fer Galdrasýning á Ströndum fremst í flokki og sýningin á Hólmavík hefur feykilega mikið aðdráttarafl – jafnvel aðstandendurnir sjálfir trúa stundum ekki sínum eigin eyrum. Nú standa yfir framkvæmdir við annan áfanga galdrasýningarinnar í Bjarnarfirði – bygging á kotbýli kuklarans sem verður væntanlega opnað í sumar.

Annað verkefni sem er í þróun er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir sýningunni Sauðfé í sögu þjóðar í félagsheimilinu Sævangi. Sauðfjársetrið stendur líka fyrir fjölmörgum uppákomum og atburðum. Á næstunni heldur setrið til dæmis spurningakeppni og í sumar verða skemmtanir eins og Dráttarvéladagur, Furðuleikarnir og Meistaramót í hrútadómum.

Margt annað má nefna. Fyrir stuttu var Sögusýning Djúpavíkur opnuð í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík og norður í Trékyllisvík er minja- og handverkshúsið Kört sem ávallt er gaman að heimsækja. Nú í haust var sett upp lítil sögusýning í Þverárvirkjun. Strandir eru svo sannarlega framarlega í flokki við miðlun sögunnar.

Önnur þjónusta hefur líka verið að eflast, gistirýmið eykst og gæðagisting er nú í boði á svæðinu á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Ný sundlaug við tjaldsvæðið á Hólmavík á örugglega eftir fá ferðamenn til að dvelja lengur í þorpinu. Önnur sundlaug er í undirbúningi á Drangnesi og upp á síðkastið hafa menn rætt í aukinni alvöru um að gera náttúruperluna Grímsey aðgengilega fyrir ferðafólk. Sá staður gæti auðveldlega orðið heimsfrægur með ómetanlegum margfeldisáhrifum fyrir ferðaþjónustu á Ströndum. Ásókn í gönguleiðina frá Reykjarfirði nyrðri í Ófeigsfjörð gæti líka margfaldast ef komið væri upp svefnskálum á leiðinni. Við eigum líka eftir að markaðssetja myrkrið og veturinn, vorið og haustið, hér fyrir norðan.

LITIÐ TIL FRAMTÍÐAR

Allar þessar breytingar hafa orðið samhliða verulegri fjölgun ferðafólks hér á Ströndum. Þetta er gleðiefni. Samt er ennþá gleðilegra að samkvæmt könnunum stefna fjölmargir Íslendingar á ferðalag um Strandir og Vestfirði í fyrsta sinn næstu árin. Það er ágætt að eiga þann fjölda inni.

Þróuninni við uppbyggingu ferðaþjónustunnar er nefnilega engan veginn lokið. Næstu 10 ár held ég að sé önnur álíka bylting framundan og sú sem við höfum orðið vitni að síðustu 10 ár. Mörg ný fyrirtæki eiga eftir að koma fram og lögð verður verulega aukin áhersla á afþreyingu. Samhliða þessu þurfa sveitarfélög og ríki að efla þátttöku sína í uppbyggingu úti á landi, ekkert síður en markaðssetningu. Miklu skiptir að það takist að lengja ferðamannatímann á landsbyggðinni og að fleiri hafi heilsársvinnu í atvinnugreininni.

580-urkirkjuturni

Hér á Ströndum skortir enn töluvert á að samgöngur séu viðunandi. Úr því verður að bæta sem fyrst. Möguleikar á langtímalánum eða styrkjum til uppbyggingar ferðaþjónustu í dreifbýli eru heldur hreint ekki nógu góðir. Í flestum tilfellum verða litlir ferðaþjónar að glíma við bankakerfið og þá okurvexti sem þar eru á boðstólum. Því þyrfti að breyta. Gaman væri líka ef hin þunglamalega Byggðastofnun færi að styðja í alvöru við ferðaþjónustuna með öðru en hlutafé til hótelbygginga.

Aðalatriðið er samt fyrir okkur Strandamenn að vanda til verka og sinna uppbyggingunni af kostgæfni og natni. Gerum hlutina vel. Vinnum saman. Gæðaþróun og samvinna verða lykilhugtök þessarar aldar í ferðaþjónustunni.

Jón Jónsson, þjóðfræðingur á Kirkjubóli