01/05/2024

Haustferð um fjöll og firnindi

Hjólaklúbburinn Selkolla á Ströndum fór í sína fyrstu árlegu haustferð í gærmorgun og var lagt upp frá Selkollusundi á Bjarnarfjarðarhálsi og hjólað þaðan og eftir slóða sem liggur ofan af hálsinum yfir Trékyllisheiði. Eftir tæplega tveggja stunda hjólreiðar eftir slóðanum í gegnum ægifagra móa og mikilfengleg holt með dýrleg útsýn yfir firðina tvo, Steingrímsfjörð og Bjarnarfjörð og eftir tilheyrandi myndapásur, nestispásur og aðrar hverskyns pásur sem urðu ískyggilega oft á leið klúbbsins var komið að línunni yfir Trékyllisheiði og stefnan tekin beint niður í Sunnudal sem gengur upp úr Bjarnarfirði, þangað sem ferðinni var einmitt ætlað.

Haustlitirnir skarta sínu fegursta um þessar mundir og rjúpur og aðrir fuglar sem ekki ætla sér í langferðalag fyrir veturinn eru í feikna fjöri á þessum fáförnu slóðum, enda nóg plássið fyrir þá sem eftir eru. Það tók hjólaklúbbinn rétt um hálftíma að skrönglast gegnum landið niður í dalinn og niður að ánni rétt neðan við fossinn Fossar þar efst uppi. Síðan var ánni fylgt alveg niður að bænum Sunnudal þar sem er að rísa hin myndarlegasta sumarbústaðabyggð afkomenda síðasta ábúenda þar. Fyrir vaska og vel skóaða hjólagarpa tekur leggurinn niður dalinn rétt rúmam klukkutíma ef rétt er gírað í mýrunum og flóunum á leiðinni. Eftir litla stund í kaffi hjá R. Ölveri Ragnarssyni og Sunnu Vermundsdóttir sem eiga eitt hinna myndarlegu sumarhúsa þarna í dalnum var stefnan tekinn upp Bjarnarfjarðarháls á ný að bifreiðinni sem hafði beðið þar í um 4 1/2 klukkustund. Að sögn var það erfiðasti leggur leiðarinnar en Bjarnarfjarðarháls tekur verulega á í brekkunum fyrir stórreykingamenn.

Hjólaklúbburinn Selkolla var stofnaður árla gærmorguns en formaður hans og eini meðlimur er Sigurður Atlason og markmið klúbbsins er að hann hreyfi sig aðeins meira og reyki mikið minna og helst ekki neitt. Því það er óhollt og gerir engum gott, nema framleiðendum þessa skaðlega varnings. Það er kannski rétt að taka það fram að fyrst þetta var lítið mál fyrir þennan kappa, þá er þetta ferðalag eitthvað sem langflestir ættu að geta tekið sér fyrir hendur.


Kort af leiðinni


Við upphaf ferðar á Bjarnarfjarðarhálsi.


Séð niður í Steingrímsfjörð. Hólmavík kúrir þarna aftan við Kálfanesborgir.


Horft upp í Staðardal í Steingrímfirði.


Séð yfir Bjarnarfjörð.


Haglega hlaðin varða á leiðinni.


Fossinn Fossar efst í Sunnudal. Þarna fannst snæugluungu fyrir þremur árum.


Fákurinn í nestistíma áður en hann brunar niður dalinn.


Gamli bærinn í Sunnudal. Þar lagðist af búskapur árið 1973.


Myndarleg sumarbústaðabyggð hefur risið í Sunnudal en þar eru komin þrjú hús til viðbótar gamla bænum.