22/12/2024

Félag fagfólks í frítímaþjónustu skorar á sveitarstjórnir

Stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu hefur sent sveitarstjórnum á Íslandi áskorun um að standa vörð um starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila fyrir börn og unglinga á þeim umbrota- og óvissutímum sem Íslendingar lifa nú. Tryggja þurfi jöfn tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu frítímastarfi og varar félagið við afleiðingum þess að skerða framlög til frítímastarfs barna og unglinga hjá sveitarfélögunum. Í ályktuninni segir ennfremur:

"Sveitarstjórnir eru langstærsti stuðningsaðili við frístundastarf barna og unglinga. Á vegum sveitarfélaganna er komið til móts við þarfir ófélagsbundinnar æsku, sérstaklega þeirra barna og unglinga sem finna síður sína fjöl hjá íþróttafélögum eða frjálsum félagasamtökum. Þörfum barna og unglinga sem standa höllum fæti er nær eingöngu mætt í frítímaþjónustu sveitarfélaganna. Sú starfsemi er því kjarninn í öllu forvarnarstarfi á Íslandi. Öflugt frístundastarf stuðlar að auknum samskipta- og félagsþroska barna og unglinga og er lykilatriði þegar hlúð er að komandi kynslóðum sem munu bera uppbyggingu þjóðfélagsins í náinni og fjarlægri framtíð.

Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda dregur úr líkum á hvers kyns áhættuhegðun, s.s. áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi. Ávinningur af því að skerða starfsemi þar sem börn og unglingar eru virkir þátttakendur er því enginn. Mikill ávinningur yrði hins vegar að því að styrkja slíka starfsemi.

Félagið bendir jafnframt á að Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þann 16. mars sl. var samþykkt þingsályktunartillaga um lögfestingu sáttamálans á Íslandi. Samkvæmt 31. grein sáttmálans viðurkenna aðildarríkin rétt barns til tómstunda og til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess. Auk þessa skuldbinda aðildarríki sig til að virða og efla rétt barns til fullrar þátttöku og stuðla að viðeigandi og jöfnun tækifærum til tómstundaiðju."