29/03/2024

Eyrarrósin verður veitt í næstu viku

Eyrarrósin, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður afhent á Bessastöðum miðvikudaginn 21. febrúar kl. 16.00 og er það í þriðja sinn sem viðurkenningin er veitt en tilkynnt verður hvaða þrjú verkefni verða tilnefnd úr hópi fjölmargra umsækjenda á næstu dögum. Eitt þeirra  verkefna hlýtur Eyrarrósina; fjárstyrk að upphæð kr. 1.5 milljón og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur til eignar og hin tvö hljóta 200 þúsund króna framlag. Öll verkefnin hljóta að auki tíu flugferðir frá Flugfélagi Íslands. strandir.saudfjarsetur.is er kunnugt um að minnsta kosti eitt verkefni af Ströndum sem sótti um Eyrarrósina.

Verðlaunin veitir Dorrit Moussaieff forsetafrú, sem jafnframt er verndari Eyrarrósarinnar.

Fyrir rúmu ári féllu verðlaunin í skaut LungA – listahátíðar ungs fólks, Austurlandi en árið 2005 hlaut Þjóðlagahátíðin á Siglufirði Eyrarrósina.

Eyrarrósin á rætur sínar í því að árið 2004 gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðarstofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni til þriggja ára í tilraunaskyni. Afar vel hefur tekist til og því hefur verið ákveðið endurnýja samstarfið til næstu tveggja ára. Verður samningur þess efnis undirritaður á miðvikudag.

Markmiðið með Eyrarrósinni er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Eyrarrósin er veitt einu afburða menningarverkefni á starfssvæði Byggðarstofnunar.

Auglýst var eftir umsóknum í fjölmiðlum og voru umsækjendur m.a. ýmis tímabundin verkefni, menningarhátíðir, stofnanir, söfn.

Verkefnisstjórn, skipuð forstjóra og stjórnarformanni Byggðarstofnunnar og stjórnanda og framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík, tilnefna og velja verðlaunahafa.