14/11/2024

Eyrarrósin 2008 afhent í næstu viku

Ljósm.: www.listahatid.isMenningarverðlaunin Eyrarrósin sem er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður afhent í fjórða sinn á Bessastöðum fimmtudaginn 10. janúar n.k. Að venju hafa þrjú verkefni verið tilnefnd úr hópi umsækjenda og eitt þeirra hlýtur Eyrarrósina sem innifelur auk heiðursins fjárstyrk að upphæð kr. 1.5 milljón og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur til eignar. Hin tvö verkefnin hljóta síðan 200 þúsund króna framlag. Öll verkefnin hljóta að auki tíu flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Strandagaldur hlaut Eyrarrósina á síðasta ári. Verkefnin sem eru tilnefnd að þessi sinni koma úr Skagafirði og Ísafirði, auk þess sem Safnasafnið í Eyjafirði er tilnefnt annað árið í röð.

 
 
Karlakórinn Heimir
kórstarf í Skagafirði  í 80 ár og aldarafmæli Stefáns Íslandi
 
Karlakórinn Heimir er glæsilegur fulltrúi íslenskrar karlakórahefðar og hefur í gegnum tíðina verið einn af hornsteinum menningarlífs í Skagafirði. Dagskrá í tilefni aldarafmælis Skagfirðingsins og söngvarans Stefáns Íslandi lýsir metnaði og ræktarsemi við íslenskra atvinnusöngvara um leið og það gefur kórnum einstakt tækifæri til að takast á við stórbrotið verkefni. Samstarf við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og öflugir einsöngvarar  gera verkefnið sérlega glæsilegt og markar 80 ára afmæli kórsins með eftirminnilegum hætti.
Aldrei fór ég suður
tónlistarhátíð á Ísafirði
Óvenjuleg og spennandi tónlistarhátíð, þar sem ungt fólk er í fararbroddi. Merk tónlistarhefð svæðisins  samtvinnuð því nýjasta sem er að gerast í tónlistarlífi landsins. Verkefnið hefur á undanförum árum vaxið og eflst og vakið mikla athygli langt út fyrir landsteinana og skipar þannig alveg sérstakan sess í öflugu tónlistarlífi landsins. Hefur dregið athygli að landshlutanum með einstöku framlagi eins fremsta tónlistarmanns landsins, Mugison. Öflugur stuðningur kraftmikilla einstaklinga og bæjarfélagsins hafa  tryggt hátíðina í sessi sem eina öflugustu menningarhátíð landsins. Þetta er í annað skipti sem Aldrei fór ég suður er tilnefnt til Eyrarrósarinnar.
Safnasafnið
við Svalbarðseyri
Sérstaða Safnasafnsins í íslensku safna og sýningarhaldi er óumdeild, en safnið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi. Með metnaðarfullu starfi árum saman hefur tekist að skapa einstakan ramma utan um alþýðulist, nýrri list og handverk af ýmsu tagi. Sýningar safnsins hafa borið faglegum metnaði gott vitni og sérstök verkefni safnsins og sýningar stefna saman ýmsum listastefnum og tvinna saman starf hámenntaðra listamanna og áhugafólks. Frumkvæði einstaklinga í þessu einstaka safni er aðdáunarvert og einstakt. Safnasafnið hlaut einnig tilnefningu í fyrra.

Önnur verkefni auk Strandagaldurs sem fengið hafa Eyrarrósina eru LungA –listahátíð ungs fólks, Austurlandi og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.

Eyrarrósin á rætur sínar í því að árið 2004 gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðarstofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni til þriggja ára í tilraunaskyni. Afar vel hefur tekist til svo ákveðið var að endurnýja samstarfið á síðasta ári. Markmiðið með Eyrarrósinni er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.
 
Dorrit Moussaieff forsetafrú afhendir verðlaunin en hún er jafnframt verndari Eyrarrósarinnar.