23/12/2024

Er fundur með samgönguráðherra ekki fyrir alla íbúa Strandasýslu?

Borið hefur á óánægju með fundartíma samgönguráðherra sem haldinn verður á Hólmavík í kvöld. Íbúi í Árneshreppi hafði samband við strandir.saudfjarsetur.is með vangaveltur um hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir því að íbúar Árneshrepps, nyrsta sveitarfélagsins á Ströndum kæmust á fundinn. Samgöngu- og fjarskiptamál brenna heitt á íbúum Árneshrepps líkt og öðrum íbúum héraðsins en vegurinn norður í Árneshrepp er lokaður og því hafa íbúar þar ekki sama möguleika á að mæta á fundinn og hlýða á ráðherra. "Ég myndi skilja það ef allt væri á kafi í snjó en svo er ekki. Það er nú ekki svo mikill snjór þannig að það hefði ekki verið erfiðleikum háð að opna" segir í innleggi frá íbúa í Árneshreppi sem birtist á Strandamannaspjallinu hér á strandir.saudfjarsetur.is. Fundurinn hefst klukkan 20:00 í kvöld á Café Riis á Hólmavík.