22/12/2024

Endurnýjun framundan

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Framundan er endurnýjun í Framsóknarflokknum. Formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, hefur ákveðið að hætta á næsta flokksþingi og það verður haldið fljótlega. Fyrir liggur að það verður endurnýjun í forystusveit flokksins og samhliða mun fara fram umræða um almenna stöðu flokksins. Því fylgir að sjálfsögðu að greina verður ástæður minnkandi fylgis Framsóknarflokksins undanfarin ár og fram mun fara málefnaleg endurnýjun. Vegna ákvörðunar Halldórs verða breytingar á ríkisstjórninni á næstunni. Ég tel enga ástæðu til þess að fara á taugum vegna þess þótt það taki einhvern tíma að ná niðurstöðu í það mál.

Ríkisstjórnin situr og hefur nokkuð traustan þingmeirihluta á bak við sig. Það skiptir engu máli hvort tilteknir einstaklingar taki sæti í ríkisstjórn nokkrum dögum fyrr en seinna eða að hvort einhverjir kunni að hætta. Stefna ríkisstjórnarinnar verður sú sama og unnið verður að aðgerðum í efnahagsmálum eftir sem áður og að lokum verður að bera þær undir þingflokka stjórnarflokkanna. Mannabreytingar eiga ekki að hafa áhrif á nauðsynlegar ákvarðanir.

Innan Framsóknarflokksins er mikið starf framundan. Það snýst ekki bara um það að kjósa nýja forystu fyrir flokkkinn heldur ekki síður um málefni. Þegar allt er á botninn hvolft þá eru það málefnin sem mestu ráða um gengi stjórnmálaflokka og er ég þá ekki að gera lítið úr áhrifum einstaklinga og forystumanna, sem vissulega eru alltaf mikil.

Ég hallast að því að best sé að leiða til lykta sem fyrst val á forystu flokksins. Það verður að fara fram á flokksþingi. Hugmyndir um það að velja framtíðarforystu flokksins í skyndingu á miðstjórnarfundi voru alltaf óraunhæfar. Í Framsóknarflokknum eru um 10 þúsund félagsmenn og það gengur ekki að 150 manns taki sér vald þeirra. Auk þess stendur skýrt í lögum flokksins að formann skuli kjósa á flokksþingi. Þá segir í lögunum að varaformaður taki við störfum formanns ef formaður hverfur úr embætti. Hlutverk miðstjórnar við þær aðstæður er að kjósa nýjan varaformann. Þá skal miðstjórn kjósa nýjan varaformann og ritara ef þeir sem störfunum gegna láta af störfum milli flokksþinga. Hvergi kemur fram að miðstjórn sé falið að kjósa formann.

Við þau tímamót að núverandi formaður flokksins lætur af störfum er eðlilegt að líta svo á að val á forystumönnum sé til nokkurrar framtíðar og það á að gerast þannig að flokksmenn geti haft sem mest áhrif á það. Á síðasta flokksþingi flutti ég ásamt nokkrum flokksmönnum tillögu um kjör formanns og þar var lagt til að allir flokksmenn gætu kosið. Tillögunni var vísað til sérstakrar nefndar milli flokksþinga.

Aðeins um 9% flokksmanna geta tekið þátt í vali á forystu flokksins miðað við núverandi lög flokksins. Það er alltof þröngur hópur til þess að víst sé að kjörið endurspegli vilja flokksmanna. Sem dæmi má nefna að á síðasta flokksþingi hlaut kjörin forysta flokksins atkvæði aðeins um 4% flokksmanna, þótt hún fengi góðan meirihluta atkvæða þeirra sem höfðu atkvæðisrétt á flokksþinginu. Eindregið sjónarmið mitt er að rýmka reglur þannig að mun fleiri flokksmenn komi að vali á forystu flokksins hverju sinni en nú er.

Málefnastarfið er ekki síður nauðsynlegt en val á nýrri forystu. Svara þarf spurningum eins og þeirri: hvernig flokkur á Framsóknarflokkurinn að vera og hver á sérstaða hans að vera gagnvart öðrum flokkum í ljósi þeirrar þróunar að flestir aðrir flokkar hafa færst inná miðju stjórnmálanna. Undanfarin 20 ár hefur dregið verulega úr þeim andstæðum sem um áratugi voru í íslenskri pólitík og við það verður minni sérstaða Framsóknarflokksins, sem hófsamur flokkur milli hægri og vinstri.

Forsenda varanlegs árangurs er fólgin í málefnalegri skilgreiningu flokksins. Óvarlegt er að treysta mikið á að vinna stuðning lausafylgis í kosningabaráttu með viðamikilli auglýsingaherferð. Menn hljóta vinna að því að stækka fastan fylgisgrunn flokksins og það tel ég mikilvægasta verkefni okkar á næstunni.

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður
www.kristinn.is