24/04/2024

Tækifæri Norðurfjarðar

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur reka sameiginlega eyðibyggðastefnu þar sem rétturinn til sjósóknar er tekinn af byggðunum. Fyrir tveimur árum þrengdu Framsókn og Sjálfstæðisflokkur enn að sjávarbyggðunum með því að setja minnstu trillur landsmanna inn í alræmt kvótakerfi sem hefur eingöngu orðið til tjóns fyrir þjóðina. Útgerðarmenn minnstu trillanna biðu fæstir fjárhagslegt tjón af þessari ráðstöfun þar sem þeir fengu kvóta sem þeir gátu selt fyrir margfalda ársveltu.

Einhver kann að spyrja hvort eitthvað hafi verið að þessu ráðslagi Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra sem gekk þvert á gefin loforð.

Já, nánast óumdeilt er að kvótasetningin varð þjóðinni til tjóns bæði hvað varðar skynsamlega nýtingu á fiskimiðum á grunnslóð og með því að grafa undan sjávarbyggðunum. Þingmenn Frjálslynda flokksins höfðu varað ríkisstjórnina rækilega við en allt kom fyrir ekki, ríkisstjórnin reiddi til höggs. Dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur nánast viðurkennt á heimasíðu sinni að tilgangurinn hafi m.a. verið sá að vega að Frjálslynda flokknum.

Ekki verður því á móti mælt að þingmenn Frjálslynda flokksins hafi verið sannspáir um hverjar yrðu afleiðingar ólaganna.

Afleiðingin kemur skýrt fram á Norðurfirði á Ströndum. Þar hafði orðið talsverður uppgangur vegna nálægðar byggðarlagsins við gjöful fiskimið sem minnstu trillurnar sóttu í að gera út frá. Þessum umsvifum fylgdi að höfnin var endurbætt og tveir nýir löndunarkranar voru settir upp til að landa aflanum.

Á tölum um landaðan afla kemur skýrt fram hvaða afleiðingar kvótasetningin sem Vestfirðingarnir Kristinn H. Gunnarsson, Einar Kristinn og Einar Oddur stóðu sameiginlega að hafði fyrir Norðurfjörð. Landaður afli var fimm sinnum minni eftir að áhrifa lagasetningar fór að gæta á árinu 2005 en árið á undan. Á þessu ári er enn útlit fyrir enn frekari samdrátt þrátt fyrir mikla fiskgengd á nálægum fiskimiðum.

Morgunblaðið gengur undir eyðibyggðastefnunni

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins er fegruð sú framtíðarsýn að byggð á norðurhluta Stranda og í raun Vestfjörðum öllum verði að mestu leyti sumarhúsabyggð. Þessi sýn sem Morgunblaðinu finnst einkar skemmtileg og tekur heils hugar undir er kölluð hið nýja Ísland. Þeir sem vilja gera fólki kleift að búa við og nýta staðbundin fiskimið hringinn í kringum landið eru sagðir vera fulltrúar gamla tímans.

Með þvílíkum málatilbúnaði reynir Morgunblaðið að réttlæta þann fáránleika sem blasir við á landsbyggðinni, fáránleikann sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa búið til, fáránleika fyrir flest kvótakerfi þar sem veifað er framan í handhafa veiðiheimilda tífaldri ársveltu fyrir það eitt að hætta starfsemi og nýtingu nálægra fiskimiða. Helsti talsmaður Morgunblaðsins í sjávarútvegsmálum bítur síðan höfuðið af skömminni með því að halda því fram fullum fetum að það að atvinnuréttur hverfi að fullu úr sjávarbyggð, t.d. Grímsey, Bíldudal eða Hofsósi, stafi af einhverri sjálfseyðingarhvöt viðkomandi byggðar!

Tækifæri Norðurfjarðar

Það vill svo til að einmitt sömu helgi og Morgunblaðið birti fagurgala sinn um eyðibyggðastefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var ég staddur á Norður-Ströndum og ræddi við tvo unga heimamenn sem voru vel menntaðir á sviði sjávarútvegs. Þeir veltu fyrir sér hverri smugu til þess að framfleyta sér og fjölskyldum sínum á sínum fallegu uppeldisstöðvum. Ýmsir möguleikar voru nefndir en nánast alltaf var komið að því að Sjálfstæðisflokkurinn, fyrrum flokkur einkaframtaksins, hafði lokað fyrir allar leiðir til nýliðunar í sjávarútvegi.

Það var samdóma niðurstaða ungu mannanna að við það að Frjálslyndi flokkurinn kæmist að í næstu ríkisstjórn sköpuðust ný tækifæri, ekki einungis á Norður-Ströndum heldur í sjávarútveginum í heild sinni.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins
www.sigurjon.is