28/04/2024

Elsti Íslendingurinn er Strandakona

Vefurinn langlifi.isÁ vefnum www.jr.is/langlifi kemur fram að Þuríður Samúelsdóttir er elsti núlifandi Íslendingurinn, rúmlega 104 ára. Þuríður er nú búsett í Reykjavík, en hún er fædd í Miðdalsgröf í Tungusveit á Ströndum 19. júní 1903. Foreldrar hennar voru Samúel Guðmundsson og Magndís Friðriksdóttir. Maður Þuríðar var Jónatan Halldór Benediktsson bóndi og kaupfélagsstjóri á Hólmavík, en hann lést árið 1983. Þau áttu fjögur börn. Þuríður býr enn heima, með dóttur sinni sem er nýorðin 72 ára og syni sem er 83 ára.

Sá Íslendingur sem var elstur á undan Þuríði var Kristín Guðmundsdóttir, en hún lést 8. janúar 2008, 105 ára að aldri. Kristín var fædd í Kolbeinsvík á Ströndum og ólst upp í Birgisvík. Maður Kristínar var Viggó Guðmundsson, ættaður af Ströndum, en hann lést fyrir rúmum 34 árum. Þau voru fyrst í húsmennsku á Kleifum í Kaldbaksvík, en fluttu til Ísafjarðar 1935 og á höfuðborgarsvæðið 1954. Börn þeirra voru fjögur. Kristín var orðin 100 ára þegar hún flutti á Sólvang í Hafnarfirði. Þegar Kristín varð 104 ára kom fram á vefsíðu Sólvangs að hún klæddist alla daga, heyrnin væri farin að daprast en sjónin væri í lagi og hún læsi dagblöðin.

Næst elsti núlifandi Íslendingurinn, Torfhildur Torfadóttir, býr á Ísafirði og hefur gert lengi. Hún er nú 103 ára, fædd 24. maí 1904 í Asparvík á Ströndum og ólst upp í Selárdal við Steingrímsfjörð til fermingaraldurs. Hún var yngsta af átta börnum Önnu Bjarnveigar Bjarnadóttur og Torfa Björnssonar. Torfhildur hefur alla tíð verið heilsuhraust og sem dæmi má nefna að hún tók þátt í kvennahlaupinu í fyrra.