22/12/2024

Dráttarvéladagur í Sævangi

Í dag, sunnudaginn 22. júlí, verður Dráttarvéladagur á Sauðfjársetrinu í Sævangi og dýrindis kaffihlaðborð í Kaffi Kind frá kl. 14:00-18:00. Sögusýningin Dugmiklar dragþórur verður opnuð með viðhöfn í Kaffi Kind kl. 14:00, en hún er ein af þeim sérsýningum sem settar eru upp í tilefni af 10 ára afmæli Sauðfjársetursins. Nú þegar eru uppi sérsýningarnar Hagleiksmaðurinn Þorsteinn Magnússon og listsýningin Áningarstaður með verkum eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur, fyrir utan aðalsýningu safnsins Sauðfé í sögu þjóðar. Keppni í ökuleikni á aldraðri dráttarvél fer fram á vellinum og ferðir í kindavagni eru í boði fyrir börn á öllum aldri. Heimildasöfnun Sauðfjársetursins með spurningalistum verður kynnt og sumarleikur er í fullum gangi fyrir gesti að spreyta sig á. Ókeypis er inn á sýningar Sauðfjársetursins í tilefni dagsins og allir hjartanlega velkomnir!