07/10/2024

Dillur í Hnyðju

Dillur Andrea Hnyðja listsýning

Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar, sýndi á sér nýja hlið á dögunum þegar hún opnaði málverkasýningu í Hnyðju á Hólmavík á bæjarhátíðinni Hamingjudögum. Myndirnar eru merktar AnKrJó og eru sérstaklega glaðlegar. Þær eru ýmist unnar á krossvið eða bleyjuléreft og Andrea notar oftast akríl, olíu eða ýmiskonar lakk. Sýningin er opin á skrifstofutíma Strandabyggðar alla virka daga frá 10-14 (en skrifstofan verður reyndar lokuð frá 21/7 til 2/8 í sumar vegna sumarleyfa). Yfirskrift sýningarinnar er Dillur og er hún fyrsta einkasýning Andreu.

Í kynningu á sýningunni segir Andrea: „Að stíga út fyrir þægindarammann er öllum holt. Að gera eitthvað annað og nýtt. Að leyfa sér að mistakast, vinna sigra, halda áfram, skipta um skonun eða bara láta draumana rætast … Hingað til hef ég haldið myndunum að mestu fyrir mig og mína nánustu en nú langar mig að opna upp á gátt. Ég legg myndirnar mínar fram fyrir ykkur og alla sem vilja sjá, af auðmýkt, væntumþykju og virðingu. … Af  hverju kalla ég sýninguna Dillur? Jú, vegna þess að mamma mín sagði alltaf þegar ég leyfði huganum að reika í skapandi leik – Hvaða dillur eru þetta í þér? Jább, þetta eru mínar dillur og ég vona að þið njótið :)“